Skip to main content
Fagmál

Nokkur minnisatriði frá formanni

By október 10, 2011nóvember 15th, 2018No Comments

Kæru félagar,

á síðustu mánuðum hafa ýmis mál komið inná borð til mín og datt mér í hug að senda ykkur línu til að hnykkja á nokkrum þáttum sem virðast koma upp aftur og aftur. Ég vil líka nota tækifærið og biðja ykkur að senda línu eða hafa samband ef eitthvað er sem þið haldið að félagið sem slíkt ætti að taka á en gerir ekki.

Ráðningarsamningur –
er eitthvað sem við verðum að huga vel að þegar við ráðum okkur á nýja staði. Það hafa ítrekað komið upp vandamál hjá félagsmönnum vegna ófullkominna ráðningarsamninga. Félagið hefur ætíð boðist til þess að lesa yfir samning og gefa ráð. Ég vil biðja ykkur að hafa þetta í huga því ef eitthvað kemur uppá þá er nauðsynlegt að hafa hlutina á hreinu, sérstaklega gagnvart réttindamálum.

Löggilding/leyfisbréf –
er annað atriði sem hafa ber í huga. Við þurfum að hugsa um það sjálf að fara og sækja um löggildingu eftir nám og er það gert hjá Landlæknisembættinu í dag. Yfirleitt ætti ekki að ráða neinn til starfa sem lífieindafræðing nema hann framvísi leyfisbréfi. Þetta getur líka skipt máli ef harðnar á dalnum og segja þarf upp fólki. Ég vona að við berum öll nógu mikinn metnað í brjósti til að halda utanum svo sjálfsagðan hlut.

Einelti –
Um það hef ég bara þetta að segja, látum ekki innri reiði og pirring bitna á þeim er síst skyldi. Við erum öll ólík og nálgumst störfin e.t.v. á ólíkan hátt. Einbeitum okkur að því jákvæða hjá starfsfélögum og vinnum saman að því að gera starfsumhverfið skemmtilegt og mannvænt fyrir alla.

Launahækkanir og réttindi –
Ekkert gerist af sjálfu sér og ef við fylgjumst ekki sjálf með launaseðlum og breytingum, þá gerir það enginn. Munið að fylgja eftir því litla sem við eigum inní launatöflunni og einnig að passa uppá réttindapakkann. Ef einhver vafi er þá talið við okkur á félaginu og við reynum að finna út úr málunum.

Virk – starfsendurhæfingarsjóður –
Þetta er starfsemi sem allir ættu að vera vel meðvitaðir um, því sendi ég ykkur linkinn á heimasíðu sjóðsins og vona að þið getið fræðst eða jafnvel frætt aðra um inntakið í þessari vinnu.  http://www.virk.is/

 

Ný og endurbætt útgáfa á kennsluriti Bergljótar Halldórsdóttur –
RANNSÓKNIR Á ÞVAGI, ÖÐRUM LÍKAMSVÖKVUM OG SAUR
Kennslurit fyrir lífeindafræðinema
og aðra í heilbrigðisstéttum
Þetta er rit sem við öll ættum að eiga og nýja útgáfan er væntanleg nú í lok október. Það er gaman að segja frá því að þó fólk sé komið yfir sjötugt þá er enn brennandi áhugi og orka til að fylgja honum eftir.

Með bestu kveðjum
Arna A. Antonsdóttir
formaður

Leave a Reply