Félag lífeindafræðinga – 5o ára

Um þessar mundir verður Félag lífeindafræðinga 50 ára, nánar tiltekið 20. apríl 2017. Af því tilefni tók formaður saman eftirfarandi pistil og notaði til þess heimildir úr gömlum tímaritum félagsins, er það von okkar að það veiti ykkur skemmtilegan sem og sögulegan fróðleik tengdan sögu og þróun lífeindafræði á Íslandi. Pistillinn er ekki fullbúinn og verður bætt við hann á afmælisárinu og vonandi náum við að fara yfir helstu atriði í allri 50 ára sögu félagsins á þessu ári.

Fyrstu árin

Félagið hét upprunalega Meinatæknafélag Íslands (MTÍ) og var stofnað 20. apríl 1967. Nokkru fyrir þann tíma var starfandi hér allmargt rannsóknarfólk og þörfin fyrir að starfrækja eiginlegan skóla til þess að þjálfa og mennta fólk til rannsóknarstarfa á svið læknisfræði var knýjandi. Meinatæknadeild tók til starfa haustið 1966 í Tækniskóla Íslands og í kjölfarið sá rannsóknarfólk þörf á stofnun fagfélags. Tvær rannsóknarkonur, Jóhanna Jónasdóttir og Guðbjörg Sveinsdóttir höfðu forgöngu um að boða til undirbúningsfundar í Tjarnarbúð að kvöldi 13. febrúar 1967. Á fundinum voru lögð fram drög að lögum félagsins og ákvað fundurinn að af félagsstofnun yrði. Miklar umræður voru á fundinum um nafn félagsins og komu fram fjórar tillögur og varð fjórða tillagan hlutskörpust:

  1. Félag íslenzkra sjúkralaboranta
  2. Félag íslenzks rannsóknarfólks
  3. Félag íslenzkra meinatækna
  4. Meinatæknafélag Íslands

Fyrsti formaður félagsins var kjörinn á fundinum, Elísabet Þorsteinsdóttir frá Rannsóknarstofu Háskólans. Framhaldsstofnfundur félagsins var svo haldinn þann 20. apríl 1967 þar sem félagið var formlega stofnað og stefna í félagsréttindum ákvörðuð. Á fyrsta starfsári félagsins voru umsóknir yfirfarnar m.t.t. laga félagsins og gengið frá félagaskrá, fullgildir meðlimir félagsins á fyrsta aðalfundi eftir stofnun voru 51 meinatæknir. Á aðalfundi 5. mars 1968 var félagið fullmótað og farið að marka sér stefnu í öllum höfuðmálum, og strax á þessum tíma var rætt um erlent samstarf og samþykkt að efla tengsl við erlend félög eins og kostur var. Árið 1968 var ákveðið að félagið myndi sækja um aðild að norðurlandasamtökum meinatækna sem og alþjóðasamtökum. Á fyrstu árum félagsins hélt félagið fjölmarga fræðslufundi, gerðist aðili að samtökum heilbrigðisstétta og hélt árlega árshátíð fyrir félagsmenn sína.

Árið 1969 var félagið eitt af stofnfélögum í Samtökum Heilbrigðisstétta. Þetta ár hvatti félagið einnig öll sjúkrahús til þess að búa sig undir það að taka við menntuðum meinatæknum til starfa þar sem vitað var að aðstaða til rannsóknarstarfa var víða léleg eða jafnvel ekki fyrir hendi. Á fyrstu árum félagsins fóru allar atvinnuauglýsingar fyrir meinatækna fram fyrir tilstuðlan Meinatæknafélags Íslands. Þess má geta að þó félagið hafi í upphafi eingöngu verið fagfélag þá er ljóst að kjör félagsmanna voru stjórnarmönnum félagsins hugleikin, einn félagsfundur félagsins árið 1969 fjallaði til dæmis um kjaramál og ályktun send út þar sem þess var krafist að lífeindafræðingar yrðu hækkaðir í launum úr 15. launaflokki í 18. launaflokk. Kröfunni til stuðnings var meðal annars lengd námsins eftir skyldunám, ábyrgð starfsins þar sem sjúkdómsgreiningar og læknismeðferðir byggðust í auknum mæli á rannsóknum þeirra. Þetta varð til þess að laun meinatækna voru hækkuð úr 15. launaflokki í 16. launaflokk og voru þá á pari við laun barnakennara með 4 ára nám að loknu skyldunámi, þess má geta að á þeim tíma var nám meinatækna 7 ár eftir skyldunám.

Árin 1970-1975

Í eftirfarandi samantekt er starfsárið talið frá aðalfundi til aðalfundar, starfsárið 1970 er telst því vera frá aðalfundi 1969 til aðalfundar 1970. Þetta er gert til hagræðingar þar sem tímarit félagsins kom venjulega út að loknum aðalfundi hvert ár og miðaðist starfsárið og umfjallanir blaðsins við starfsárið á undan.

Árið 1970 samþykktu alþjóðasamtökin aðildarumsókn meinatæknafélagsins á aðalfundi sínum sem haldin var í Kaupmannahöfn það sama ár. Þetta mátti túlka sem nokkurs konar alþjóðlega viðurkenningu á námi meinatækna hérlendis. Á þessu ári birtust einnig niðurstöður úr starfsmati þar sem meinatæknum til mikillar undrunar og óánægju endurspeglaði á engan hátt störfin. Stjórn félagsins kærði matið til B.S.R.B og fór fram á að fulltrúi kæmi á vinnustaðina til að kynna sér störfin. Það var gert og að því loknu lagði fulltrúinn fram fyrir kjararáð nýtt mat á störfum meinatækna sem náði samanlagt 500 stigum sem jafngilti launaflokki 21. Endanleg ákvörðun kjararáðs var svo mat upp á 455 stig sem jafngilti 19. launaflokki og var þetta mat lagt fyrir samninganefnd ríkisins. Þetta sama ár var Bergljót Halldórsdóttir meinatæknir skipuð í nefnd á vegum heilbrigðismálaráðuneytis til að semja frumvarp til laga um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir.  Árið 1970 var einnig árið sem félagið setti á stofn nefndir í fyrsta sinn, þetta voru: Barnaheimilisnefnd, Fræðslunefnd, Skemmtinefnd, Laganefnd og Ritnefnd. Félagið gaf í fyrsta sinn út tímarit þetta ár og 17 nýjir félagsmenn gengu í félagið og var tala félagsmanna nú orðin 108.

Starfsárið 1971 einkenndist að miklu leyti af kjarabaráttu þar sem samninganefnd ríkisins hafði að engu kröfur kjararáðs, B.S.R.B og Meinatæknafélagsins um leiðrétt starfsmat. Þetta varð til þess að meinatæknar á ríkisspítölunum og síðar á Borgarspítala líka sögðu upp störfum sínum. Að lokum fóru málin þannig að framkvæmdarstjóri ríkisspítalana, Georg Lúðvíksson, samdi sérstaklega við hvern og einn meinatækni um tveggja launaflokka hækkun, úr 16. í 18. og flokkuðust meinatæknar nú á sama stað og aðrir rannsóknarmenn. Þessir samningar höfðu sama gildistíma og aðrir samningar B.S.R.B og aðrar stofnanir sem höfðu meinatækna í vinnu tóku mið af þessum samningum. Þó var ósamið um stöður kennslumeinatækna, deildarmeinatækna og yfirmeinatækna á þessum tíma. Krafa um aukna menntun og kunnáttu í starfi jókst sífellt vegna framþróunar og Menntunarnefnd meinatækna gerði tillögur til Tækniskólans um bóklegt nám byggðar á samanburði á menntun meinatækna hér og í öðrum evrópulöndum. Skólinn tók flestar þessar tillögur til greina, bóklega og verklega náminu var hér í stöðugri endurskoðun og miðaði stöðugt til hins betra, aukið námsefni í bóklegum greinum og aukin hvating til nema í verklega náminu kom með aukinni fjárveitingu. Nýjar nefndir tóku til starfa á árinu, menntunarnefnd meinatækna og meinatæknanema sem minnst hefur verið á og  undirdbúiningsnefnd fyrir Norðurlandamót lífeindafræðinga bættist við fyrri nefndir en nú var komið að MTÍ að halda sitt fyrsta norðurlandamót og skyldi það haldið  í júní 1972. Nýjir félagsmenn þetta ár voru 19 og nú voru félagsmenn orðnir 127 talsins.

Árið 1972 var heldur rólegra en árið á undan, einkenndist einna helst af vinnu við skólamál meinatækna. Félagið hafði af því miklar áhyggjur að skólastarfið væri staðnað og tæki seint og illa við sér í heimi mikillar framþróunar og nýjunga. Félagið gerði sitt ýtrasta til að koma á úrbótum með bréfaskriftum bæði í gegn um Menntunarnefnd MTÍ, sem og með bréfaskriftum til Menntamálaráðuneytis og einnig stóð félagið fyrir hringborðsumræðum milli lækna og meinatækna um menntunarmálin ásamt forseta læknadeildar HÍ. Undirbúningur norðurlandamóts var í fullum gangi þetta ár, einnig voru tveir almennir félagsfundir haldnir og í það minnsta fjórir fræðslufundir. Á aðalfundi þetta ár var líka í fyrsta sinn kosið í samninganefnd MTÍ.

Árið 1973 hélt MTÍ sitt fyrsta norðurlandaþing á Hótel Loftleiðum í Reykjavík og stóð það yfir frá 31. maí til 2. júní. Íslenskir meinatæknar sóttu þingið vel en einnig kom töluvert af meinatæknum frá norðurlöndunum á þingið. Það setti svip sinn á þingið að heimsókn þáverandi bandaríkja- og frakklandsforseta bar upp á sömu daga og hélt Nixon bandaríkjaforseti til á Loftleiðahótelinu og því mikil öryggisgæsla á staðnum og fréttaritarar í hverju horni. Mótið heppnaðist í alla staði vel, bæði læknar og lífeindafræðingar fluttu erindi auk þess sem boðið var upp á hringborðsumræður alla daga. Fjölbreytt skemmtidagskrá var einnig í boði t.d. var gestum gefin kostur á að sjá leiksýninguna Kabarett í Þjóðleikhúsinu, móttaka borgarlæknis í Höfða, heimsóknir á rannsóknarstofur og kvöldverður á Hótel Sögu. Á almennum félagsfundi var samþykkt fyrsta kröfugerð MTÍ, í henni var farið fram á að almenn störf meinatæknis yrðu verðlögð í launaflokki 20; deildarmeinatæknir í launaflokk 22; kennslumeinatæknir í launaflokk 23 og yfirmeinatæknir í launaflokk 24. Skemmtinefndin hélt jólatrésskemmtun þetta ár og fræðslunefndin hélt þrjá fræðslufundi. Lög félagsins voru tekin til endurskoðunar á þessu starfsári og áfram var unnið ötullega að því að leysa námsvandann sem kom til af skorti á plássum í verklegri þjálfun. Einnig hafði félagið haft forgöngu um að námið myndi flytjast til Háskóla Íslands og um þessar mundir stóðu vonir til þess að það gengi eftir.  Árið 1973 tók einnig gildi reglugerð sem kvað á um löggildingu starfsheitisins meinatæknir.

Árið 1974 tók félagið á leigu húsnæði að Hverfisgötu 39, þar sem það hafði til afnota stórt og gott herbergi. Félagið var því komið með aðstöðu, símanúmer og póstfang í fyrsta sinn. Félagið festi kaup á skrifborði og ritvél og var skrifstofan opin á miðvikudögum milli 16 og 18. Skiptu stjórnarkonur með sér að manna skrifstofuna og var nú hægt að snúa sér með aðgengilegum hætti til félagsins með fyrirspurnir og erindi. Þetta ár fékk fyrsti meinatæknirinn af erlendum uppruna inngöngu í félagið, það var dönsk kona sem starfað hafði hér á landi um tíma. Í lok árs skipaði menntamálaráðuneytið nefnd sem gera átti tillögur að framtíðarskipan náms meinatækna hérlendis. Í nefndinni sat fyrir hönd MTÍ Bergljót Halldórsdóttir. Árið 1974 var 11. þing alþjóðasamtakanna haldið og sendi félagið tvo fulltrúa á þingið. Starfsárið 1974 hélt félagið bæði árshátíð og Jólatrésskemmtun og var hvoru tveggja haldið á Hótel Loftleiðum. Árshátíðin þótti vel heppnuð og sóttu hana 85 félagsmenn, þetta þótti skemmtinefnd þó engin afbuða þátttaka þar sem félagsmenn á þessum tíma voru nálægt 200.

Árin 1976-1980

Árin 1980-1985

Árin 1986-1990

Árin 1991-1995

Árin 1996-2000

Árin 2001-2005

Árin 2006-2010

Árin 2011-2015