Nám í lífeindafræði

Hvar?

Lífeindafræðingar stunda nám sitt við Háskóla Íslands í lífeindafræðiskor læknadeildar sem er í nánu samstarfi við Landspítala háskólasjúkrahús og fer hluti af náminu þar fram. Lifeindafraedi_kynningarbaeklingur.pdf

Hvað þarf til að komast að?

Stúdentspróf. Æskilegt er að ljúka stúdentsprófi af náttúrufræðibraut. Ef nám er stundað á öðrum bóknámsbrautum er æskilegt að bæta við sig áföngum sem veita undirbúning í eðlisfræði, efnafræði og líffræði. Jafnframt teljast nemendur sem lokið hafa frumgreinadeild HR (áður Tækniháskóla Íslands) eða frumgreinadeild Keilis (háskólabrú, verk og raunvísindadeild) uppfylla inntökuskilyrði til að hefja námið.

Hve lengi?

Námstími til B.S. gráðu í lífeindafræði er 3 ár eða 180 einingar. Til að ljúka námi sem veitir starfsréttindi sem lífeindafræðingur þarf nemandinn að ljúka fyrra ári M.S. náms (diploma) eða 240 einingum, alls 4 árum.

Hvað með framhaldnám?

M.S. nám, sem boðið verður upp á er tveggja ára nám, 120 einingar, þar sem fyrra árið verður byggt upp á námskeiðum þar sem veruleg áhersla verður lögð á rannsóknatengt starfsnám og/eða rannsóknaverkefni en seinna árið er M.S. rannsóknaverkefni. Að loknu 5 ára námi hefur viðkomandi hlotið M.S. gráðu auk starfsréttinda. Að M.S. gráðu lokinni opnast síðan möguleiki á doktorsnámi í rannsóknatengdu framhaldsnámi læknadeilda.

Lífeindafræði – hvað er nú það?

Lífeindafræðingar á Íslandi eins og í öðrum löndum hafa leitað að nafni á fræðigrein sína sem er meira lýsandi bæði hvað varðar menntun og starf. Á ensku nota lífeindafræðingar orðin “biomedical science”, en það var ekki gott að þýða það beint á Íslensku. Því var leitað logandi ljósi að góðum hugmyndum og lífeindafræðingar eru ánægðir með niðurstöðuna sem er staðfest með lögum um lífeindafræðinga. Þeir líta svo á að þeir séu að greina ýmis konar eindir, smáar og stórar sem geta haft áhrif á líf og heilsu fólks, frumeindir, sameindir, erfðaefnisbúta, prótein, ensím, frumur, líffæri, líffærakerfi – raunar allt það sem okkur dettur í hug að geti verið ein eining, eind, frá frumeind upp í þá einingu sem kallast maður.

Hvað gera lífeindafræðingar?

Lífeindafræðingar rannsaka ýmis sýni frá líkamanum í þeim tilgangi að greining fáist á sjúkdómum, meðferð sé sem markvissust og hægt sé að meta horfur sjúklinga. Þetta getur verið allt frá skimun eftir krabbameinsfrumum að greiningu HIV, frá blóðgjöf til greiningu matareitrana, frá mælingum að glúkósamagni í blóði að leit að tilteknum breytingum á erfðaefni sem leiða til sjúkdóma.

Í hverju felst námið?

Í upphafi námsins er lögð megináhersla á undirstöðugreinar, svo sem efnafræði, líffærafræði, lífeðlisfræði, tölfræði, tækjafræði. Nemendur fá jafnframt fræðslu um uppbyggingu og hlutverk heilbrigðiskerfis og eru búnir undir teymisvinnu sem er nauðsynlegur þáttur í störfum heilbrigðisstarfsmanna. Síðar tekur við kennsla í aðferðafræði og sjúkdómafræði ýmissa faggreina innan lífeindafræðinnar Má þar nefna ónæmisfræði, klíníska lífefnafræði, blóðmeinafræði, sameindalífræði, sýklafræði, vefjameinafræði og gæðastjórnun.

Hvernig er kennt?

Fjölbreyttum aðferðum er beitt í kennslu og námsmati. Þannig fléttast fyrirlestrar saman við verkkennslu, hópa- og einstaklingsverkefni. Hluti sumra áfanganna fer fram með starfsnámi á rannsóknastofum LSH og fleiri stofnana. Árangur er metinn eftir frammistöðu í verkefnavinnu sem skilað er með nemendafyrirlestrum og rannsóknaskýrslum ásamt verklegum og skriflegum prófum.

Hverju á námið að skila?

Markmiðið er að mennta lífeindafræðinga sem hafa yfir fjölþættri þekkingu að búa þannig að þeir verði eftirsóttir í vinnu á öllum tegundum rannsóknastofa á heilbrigðissviði og víðar. Að námi loknu er því stefnt að því að lífeindafræðingar:

  • Hafi tileinkað sér fræðilegar kenningar sem snerta aðferðafræði og sjúkdómafræði meginsviða lífeindafræðinnar og geti framkvæmt almennar rannsóknir og kunni skil á mikilvægum sérrannsóknum í blóðbankafræði, blóðmeinafræði, erfðafræði, ísótóparannsóknum, klínískri lífeðlisfræði, klínískri lífefnafræði, líffærameinafræði, ónæmisfræði, sýklafræði og sameindalíffræði.
  • Skilji þýðingu rannsókna við greiningu sjúkdóma, meðferð gegn sjúkdómum, mat á horfum sjúklinga og gildi þeirra við forvarnir.
  • Þekki hugmynda- og aðferðafræði gæðastjórnunar, öryggisvörslu og gagnakerfa og geti beitt þeim aðferðum.
  • Hafi þekkingu og skilning á hugmynda- og aðferðafræði við stjórnun, leiðsögn og siðfræði í samskiptum við sjúklinga og samstarfsfólk og sýni hæfni í mannlegum samskiptum.

Hvar vinna lífeindafræðingar?

Flestir lífeindafræðingar starfa á rannsóknastofum sjúkrahúsa og fyrirtækja í erfðagreiningu. Menntun lífeindafræðinga nýtist mun víðar í atvinnulífinu og þá má því einnig finna í fyrirtækjum í lyfjaframleiðslu, rannsóknastofum sem þjóna landbúnaði, sjávarútvegi, stóriðju. Einnig má finna þá utan rannsóknastofanna á vinnu þar sem krafist er góðra skipulaghæfileika og þekkingar á gæðakerfum. Glöggt má síðan sjá í ýmsum sakamálaþáttum að lífeindafræðingar taka að sér sífellt stærri hlutverk við rannsóknir sem snúast um lausn sakamála. Vinnustaðir lífeindafræðinga.

Hvað með útlönd?

Námsbraut í lífeindafræði er í nánu samstarfi um nemenda- og kennaraskipti og önnur verkefni við ýmsar erlendar námsbrautir sem bjóða upp á nám í lífeindafræði. Sífelld þróun er í framboði á framhaldsnámi í erlendum skólum. Lífeindafræði er nám og starf án landamæra þannig að víðtækir möguleikar eru í námsvali og starfi bæði hér á landi og erlendis.