Um FL

Velkomin á vef Félags lífeindafræðinga!

Félag lífeindafræðinga er fagstéttarfélag lífeindafræðinga. Sjá nánar í log_um_lífeindafræðinga. Félagið var stofnað vorið 1967 og er aðili að Bandalagi háskólamanna og er eitt af fjórum félögum sem standa saman að Þjónustuskrifstofunni SIGL.

Hlutverk félagsins er að

  • semja um kaup og kjör félagsmanna
  • standa vörð um réttindi félagsmanna
  • stuðla að aukinni menntun og endurmenntun lífeindafræðinga
  • stuðla að faglegu og stéttarlegu samstarfi við innlend og erlend samtök
  • vinna að öryggi félagsmanna á vinnustöðum
  • auka kynni félagsmanna meðal annars með fræðslu-, skemmti- og annari félagsstarfsemi.

Lífeindafræðingar eru heilbrigðisvísindamenn. Menntun lífeindafræðinga fer fram í Geisla- og lífeindafræðiskor í Læknadeild Háskóla Íslands. Sjá nánar í námið. Störf lífeindafræðinga eru fyrst og fremst rannsóknir á mannslíkamanum, allt frá smæstu tengingu í DNA keðju og upp úr. Sjá nánar Siðareglur. Lífeindafræðingar starfa flestir á opinberum heilbrigðisstofnunum en stór hluti starfar einnig á einkareknum rannsóknastofum og lyfjaiðnaði. Lífeindafræðingar stunda gæðamat á rannsóknum sem þeir og aðrir gera og eru leiðbeinandi í aðferðum, í öflun, rannsóknum og varðveislu á lífssýnum. Sjá nánar um störf lífeindafræðinga.

Stjórn félagsins fer með æðsta vald í öllum málefnum félagsins á milli aðalfunda og fylgir eftir lögum félagsins og samþykktum og er í fyrirsvari fyrir það út á við. Stjórninni er heimilt að skipa nefndir til að vinna að ákveðnum verkefnum. Sjá nánar í lögum félagsins. Lögin eru frá 2016.

Skrifstofa Félags lífeindafræðinga (kt. 481178-0299) er á Þjónustuskrifstofu SIGL, í húsnæði BHM á 3. hæð í Borgartúni 6, 105 Reykjavík. Sími: 595 5186 og 595 5187, netfang [email protected] , heimasíða https://lifeindafraedingur.is/ framkvæmdastjóri skrifstofunnar er Fjóla Jónsdóttir. Opnunartími skrifstofu með símsvörun er: á mánudaga til fimmtudaga kl. 09.00-16.00 og föstudaga frá kl. 09.00-12.00.

Kjaramálin  Kjaramál eru meginhagsmunamál félagsins. Launakjör félagsmanna á opinbera markaðnum eru ákvörðuð í kjarasamningum sem samninganefnd félagsins sér um að gera við fjármálaráðherra. Auk þess gera samstarfsnefndir á hverri stofnun stofnanasamninga sem kveða á um nánari útfærslu á launaröðun. Á almenna markaðnum gilda önnur lögmál, ákvörðun launasetningar fer fram í ráðningasamningi sem gerður er við hvern og einn starfsmann og þar kemur fram með hvaða hætti launaþróun skal vera. Stundum er um að ræða tengisamninga við ríkið eða almenna markaðinn en stundum er slíkt alfarið ákvarðað í árlegu launaviðtali. Félag lífeindafræðnga býður félagsmönnum á almenna markaðnum upp á ráðgjöf vegna ráðningarsamninga og launaviðtala.

Allur aðgangur félaga okkar að öllum sjóðum BHM er sá sami, nema hvað Sjúkrasjóðurinn er fyrir lífeindafræðinga á almenna markaðinum á meðan Styrktarsjóðurinn er fyrir opinbera starfsmenn. Aðildin að sjóðunum styrkir stöðu þeirra sem eru utan opinbera geirans til muna. Vinna FL í samningagerð í Fjármálaráðuneytinu og við gerð stofnanasamninga skilar sér í raun fyrir alla lífeindafræðinga hvar sem þeir starfa, þar sem öll launakjör í landinu miðast við launakjör ríkisstarfsmanna.

Fagmálin eru augljóslega þau sömu hjá öllum lífeindafræðingum:
Lög um lífeindafræðinga, sem gera okkur að sjálfstæðum vísindamönnum, nafnið, reglugerðir, endurmenntun, fræðslufundir, almennir félagsfundir, hvort heldur er Aðalfundur að vori, haustfundur eða aðrir fundir.
Styrkir til meira náms bæði frá félaginu og hjá BHM eru jöfnum höndum nýttir í sí-, endur- og viðbótarmenntun og nám lífeindafræðinga í læknadeildinni er byggt með skýrum línum allt til doktorsgráðu.
Reglugerðir frá Alþingi (t.d. um sérfræðileyfi til handa lífeindafræðingum), samkomulög innan BHM, innan Norðurlandasamtaka lífeindafræðinga NML, með verðlaun fyrir veggspjöld, fararstyrkir á ráðstefnur og fundi, siða- og samskiptanefnd, EPBS, þ.e. evrópusamtökin, þar sem unnið er grimmt að því að viðmið fyrir löggildingu og þar með starfsleyfi lífeindafræðinga í Evrópu.
IFBLS, alþjóðasamtökin sem við erum aðilar að vinna að sameiginlegu mati á vottun og gæðamálum. Vinna FL til styrkingingar á ímynd stéttarinnar með kynningum og útgáfu. Allt er þetta vinna sem fer fram á vegum Félags lífeindafræðinga – öllum lífeindafræðingum til handa.
Tímarit lífeindafræðinga birtir faglegar ritrýndar greinar eitt fárra tímarita á Íslandi, en til skamms tíma var Læknablaðið eini vettvangur lífeindafræðinga fyrir fagleg greinaskrif sín.