Skip to main content
FréttirKjaramál

Nýr samningur milli BHM og SA

By október 27, 2017nóvember 24th, 2017No Comments

Nýr ótímabundinn kjarasamningur milli  14 aðildarfélaga Bandalags háskólamanna annars vegar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar hefur verið undirritaður. Samningurinn byggir á fyrri kjarasamningi aðila frá árinu 2011. Nyja samninginn má nálgast hér.

Kjarasamningur aðildarfélaga BHM og SA er ólíkur ýmsum öðrum kjarasamningum að því leyti að hann er réttindasamningur en í honum er ekki samið um laun fyrir einstök störf eða starfsmenn. Launakjör eru hins vegar ákvörðuð í ráðningarsamningi milli vinnuveitanda og viðkomandi háskólamanns, og getur starfsmaður óskað árlega eftir viðtali við sinn yfirmann um breytingar á starfskjörum. Sérstakur skýringarrammi var settur í samninginn um þessi árlegu launaviðtöl.

Í samningnum er staðfest áður gert samkomulag aðila um aukið framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóði, en framlagið hækkaði í 10% 1. júlí síðast liðinn og hækkar í 11,5% frá 1. júlí 2018. Þá er vinnuveitanda skylt að greiða framlag í Starfsmenntunarsjóð BHM, en það var áður valkvætt. Ný heimildarákvæði voru sett í samninginn, er kveða á um að að valkvætt sé að greiða í Vísindasjóð viðkomandi stéttarfélags og í Starfsþróunarsetur háskólamanna. Nýtt ákvæði var tekið inn um staðgengla, og breytt eða aukin margvísleg ákvæði í ýmsum köflum samningsins, svo sem um uppsagnarfrest á reynslutíma, breytingar á vaktavinnukafla, veikindakafla, fræðslumálum og fleiru. Þá var lögð áhersla á mikilvægi þess að vinnuveitandi og starfsmaður geri með sér skriflegan ráðningarsamning í upphafi ráðningar.