Skip to main content
Haustfundir

Frá haustfundi FL

By október 2, 2017nóvember 15th, 2018No Comments

Haustfundur Félags lífeindafræðinga var haldinn fimmtudaginn 21.september 2017 kl. 16:15 að Borgartúni 6, Reykjavík. Fundarsköp voru með hefðbundnum hætti, eftir setningu fundar og kosningu fundarstjóra kynnti Gyða Hrönn Einarsdóttir formaður félagsins stöðuna í yfirstandandi samningaviðræðum félagsins við samninganefnd ríkisins. Fundarmönnum voru kynnt þau gögn sem félagið hefur lagt fyrir samninganefnd ríkisins. Að þessu sinni fór samningaefnd okkar félags ekki fram með hefðbundna kröfugerð heldur var ákveðið að nálgast stöðuna út frá samkeppnishæfni ríkisstofnanna og getu þeirra til að ráða til sín lífeindafræðinga á lækningarannsóknarstofur sínar. Í dag eru lífeindafræðingar takmörkuð auðlind og eftirsóttur starfskraftur á ýmsum sviðum, mikil samkeppni er því um nýútskrifaða lífeindafræðinga og hafa ýmsar stofnanir ríkisins orðið áþreifanlega varar við það.

Að venju fór fram kjör samningaefndar, formaður félagsins á fast sæti í samninganefnd félagsins, önnur sæti er kostið um á haustfundi. Eftirfarandi lífeindafræðingar gáfu kost á sér til að starfa fyrir félagið í samninganefndinni og þökkum við þeim kærlega fyrir.

Aðalmenn:

Fjóla Margrét Óskarsdóttir, Rannsóknarkjarni LSH

Inga Stella Pétursdóttir, FSA

Karen Herjólfsdóttir, Rannsóknarkjarni LSH

Kristín Einarsdóttir, Blóðbankinn

Til vara:

Arna Auður Antonsdóttir, hjartarannsókn LSH

Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir Svendsen, Rannsóknarkjrani LSH

Undir liðnum önnur mál urðu líflegar umræður um stöðuna í dag, nýliðunarvandann og vangaveltur um hvað hægt sé að gera til að draga úr nýliðunarvandanum. Stórir árgangar lífeindafræðinga fara að hætta störfum og ungir lífeindafræðingar leita í miklu mæli atvinnu á almenna markaðnum þar sem starfsumhverfið er fjölskylduvænna og grunnlaun eru hærri. Gögn félagsins sýna fram á að hjá opinberum stofnunum starfa 85 lífeindafræðingar sem eru 6o ára eða eldri, eða 39,5% allra starfandi lífeindafræðinga hjá ríkinu. Þessir hópur lífeindafræðinga hefur nær allur öðlast rétt til eftirlauna og sumir hafa nú þegar minnkað við sig starfshlutfall og hafið töku eftirlauna. Líklega tekur það Háskóla Íslands um áratug að útskrifa nægilega marga lífeindafræðinga til að fylla þetta skarð, og enn lengri tíma ef ekki er gætt að því að stofnanir ríkissins verði samkeppnishæfar um launakjör og starfsaðstæður.

Haustfund sóttu á fjórða tug félagsmanna og flestir komu svo með okkur á bjór-pubquiz í Ægisgarði, en ákveðið var að bjóða upp á annars konar skemmtun að loknum fundi en hefðbundið er. Tilefnið er að sjálfsögðu 50 ára afmælisár félagsins. Að sama skapi var áætlað að bjóða félagsmönnum upp á ferð í Þórsmörk, laugardaginn 23. september en þeirri ferð var frestað vegna slæmrar verðurspár en verður sett á dagskrá síðar.