Kæru félagsmenn.
Nú líður að jólum og við vonumst til að þau verði félagsmönnum friðsæl og ánægjuleg. Eitt og annað hefur drifið á daga okkar hjá FL á árinu og ég mun rifja upp það helsta í pistli sem ég set hér inn um áramót. Einmitt í dag er þó ljóst að hvorki gengur né rekur samningaviðræðum FL og SNR auk þess sem nokkrar stofnanir hafa ekki gengið frá úthlutun 1,65% menntunarákvæði gerðardóms. Ef þú félagsmaður góður starfar á stofnun sem ekki hefur endurnýjað stofnanasamning frá úrskurði gerðardóms hvetjum við þig til að krefja forstöðumenn svara um hverju sætir. Af hverju er ekki gengið frá þessum málum?
En að ánægjulegra málefni. Félagið hefur nú fengið í hendurnar ný barmmerki félagsins. Þessi nýju merki eru alveg eins og
gömlu merkin utan það að vera aðeins minni og án númers. Nýju merkin eru líka á prjóni en ekki nælu. Stjórn FL hefur ákveðið að ekki verður krafist endurgjalds fyrir merkin og geta félagsmenn því sótt sér merki hingað á skrifstofu félagsins, eða nálgast þau á félagsfundum. Einnig hefur stjórn sett niður dagsetningar bæði fyrir aðalfund félagsins, sem verður haldinn þann 26.apíl næstkomandi, og dagsferð sem féll niður vegna veðurs í haust, en hún verður farin 5.maí. Dagsferðin verður auglýst betur þegar nær dregur en við hvetjum lífeindafræðinga til að merkja strax við þessa daga í dagatalinu fyrir árið 2018.
Að lokum fylgir hér með jólakveðja okkar hjá félaginu til félagsmanna, gleðileg jól.