Skip to main content
FagmálFréttirKjaramál

Áramótapistill 2017/2018

By janúar 3, 2018No Comments

Okkur þótti rétt að líta aðeins í baksýnisspegilinn og renna lauslega yfir það helsta sem verið hefur á dagskrá hjá okkur á árinu ykkur til upplýsingar. Árið fór rólega af stað með því að við ásamt Félagi geislafræðinga buðum FLOG nemendafélagi í heimsókn til okkar í Borgartúnið. Góður hópur nemenda kíkti við og spurði ýmissa áhugaverðra spurninga. Það er alltaf jafn fróðlegt að spjalla við framtíðarfélagsmenn sér í lagi þegar maður áttar sig á breyttum áherslum sem fylgja nýjum tímum.

Stjórn FL hittist að jafnaði einu sinni í mánuði þar sem tekið er til umfjöllunar það helsta sem er á döfinni. Það geta verið margvísleg mál allt frá því að ræða afstöðu stjórnar til sölu á eignarhlut í sameign BHM til aðildarfélags eða umræða um kjaramál eða framþróun í faginu okkar. Við héldum aðalfund í mars sl. þar sem kosnir voru félagsmenn í stjórnir og nefndir félagsins. Félagið mannar ýmsar nefndir sem sumar hverjar hafa ekki komið saman á árinu. Kannski þurfum við að endurskoða þetta fyrirkomulag og manna nefndir eftir þörfum. Gallinn við það er lengri viðbragðstími og líkur eru á að erfiðara yrði að manna stjórn félagsins ef stuðningsnetið vantar. Ég legg það í ykkar hendur að íhuga það fram að næsta aðalfundi sem ákveðinn hefur verið þann 26. apríl næstkomandi.

Kjaramálin hafa verið áberandi á árinu þó lítill virðist ávinningurinn. Gengið var frá stofnanasamningum á tveimur stofnunum á árinu, en nú eru fimm stofnanir sem enn hafa ekki innleitt ákvæði gerðardóms í sína stofnanasamninga. Formaður hefur reynt að hafa samband við þessar stofnanir en ekki fengið fundi til að ræða stofnanasamninga. Ég legg til að þeir lífeindafræðingar sem starfa á stofnunum sem hafa mjög gamla samninga leggi okkur lið og fari fram á endurskoðun samninga næst þegar þau rekast á yfirmanninn í matsalnum. Að auki höfum við sótt námskeið og fundi í tengslum við stofnanasamningakerfið í heild sinni, rýnifund á vegum BHM um verkfallsaðgerðirnar 2015 og ýmsa samráðsfundi innan Bandalags háskólamanna, bæði formlega og óformlega.

Samninganefnd félagsins hefur fundað mikið á árinu enda rann gerðardómur sitt skeið og kjarasamningar félagsmanna hafa verið lausir frá september 2017. Samninganefndin hefur verið dugleg að rýna gögn í undirbúningsvinnunni, bæði sem við höfum unnið sjálf og einnig gögn sem BHM hefur unnið fyrir okkur. Ég held að það sé óhætt að segja að samninganefnd FL hafi aldrei farið jafn vel nestuð upplýsingum á fund SNR, hvort það skilar miklum ávinningi er hins vegar annað mál. Fundir við viðsemjendur hafa verið fimm á liðnu ári og næsti fundur hefur ekki verið boðaður. Fyrir liggur tilboð frá ríkinu um kjarabætur sem er óásættanlegt eins og staðan er í dag, í það minnsta ef ætlunin er að gera stofnanir ríkisins samkeppnishæfar við almenna markaðinn. Kannski ættum við að hætta þessum tilraunum til forsjárhyggju gagnvart þessum stóra vinnuveitanda og styðja betur við starfandi lífeindafræðinga á almennum markaði, og leyfa ríkinu að tækla sín framtíðarvandamál í friði án okkar afskipta? Ábyrgðin á lágum launum og slæmu starfsumhverfi er alltaf vinnuveitandans en ekki stéttarfélags. Ég held að það sé vandfundið það stéttarfélag sem stendur í vegi fyrir bættum kjörum og starfsumhverfi félagsmanna sinna.

Ekki tókst okkur að gefa út tímarit á þessu ári en það þýðir ekki að við höfum ekki fylgst með nýungum í faginu. Formaður sótti í haust, ásamt fulltrúa stjórnar, aðalfundi allra helstu erlendu samstarfsaðila okkar, norðurlandasamtökunum NML, evrópusamtökum lífeindafræðinga EPBS og alþjóðasamtökum lífeindafræðinga IFBLS. Ekki er búið að lesa yfir fundargerðir þessara funda en þær verða fljótlega settar inn á innri vef félagsmanna þar sem hægt verður að nálgast þær. Á þessum fundum var margt rætt og ljóst er að vandamálin sem steðja að lífeindafræðingum eru ekki þau sömu alls staðar. Þó virðast flestir í þeim sporum að hafa áhyggjur af nýliðun sem virðist hafa verið mjög lítil á lækningarannsóknarstofum undanfarinn áratug eða svo. Sums staðar vantar nær heila kynslóð á vinnustaðina sem skapar ákveðin vandamál þá einkanlega tengd samskiptum og vinnumenningu. Lífeindafræðingar í Evrópu eru einna helst að hugsa um hvernig hægt sé að ná eyrum Evrópubandalagsins til að fá þá til að setja saman reglugerð sem kveður á um lágmarksmenntun lífeindafræðinga, og eins kröfur um hæfni, þekkingu og færni sem tengjast þá umræðunni um heiminn sem einn vinnumarkað og viðmiðum sem sett eru í starfaflokkunarkerfi hvort heldur sem er innlend, evrópsk eða alþjóðleg. Lífeindafræðingum er mikið í mun að aðrir sem ekki hafa þekkingu á störfum okkar setji ekki niður slíkar skilgreiningar heldur sé það gert í samvinnu við lífeindafræðinga. Allir eru spenntir fyrir næsta alþjóðaþingi sem verður næsta haust í Flórenz og lítur út fyrir áhugaverða dagskrá svo það borgar sig að fylgjast vel með. Næsta norðurlandaráðstefna verður svo með öðru sniði en verið hefur undanfarin ár en í stað hefðbundinnar ráðstefnu munu Svíar halda menntaráðstefnu vorið 2019 sem verður sérstaklega miðuð að kennurum í lífeindafræði en Danir munu svo slá saman alþjóðaráðstefnu og norðurlandaráðstefnu og halda veglega ráðstefnu að hausti árið 2020 í Kaupmannahöfn.

Auk þess sem hér er talið upp hefur formaður fundað með samstarfsfélögum okkar í SIGL og gengur samstarfið ljómandi vel. Það er mikil stoð að deila skrifstofu með fleirum, ef málum væri ekki háttað á þann veg þá held ég að Félag lífeindafræðinga kæmist ekki af með formann í 50% starfi og 25% starf skrifstofustjóra. Formaður hefur einnig aðstoðað félagsmenn vegna ýmissa einstaklingsmála, þau eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Sum þessara mála stafa af misskilningi og leysast venjulega farsællega á stuttum tíma. Önnur eru flóknari og erfiðari viðureignar og stundum verðum við jafn vel að játa okkur sigruð í glímunni um réttindi félagsmanna á vinnumarkaði eða í starfstengdum málum en það gerum við þó ekki nema okkur finnist allar leiðir fullreyndar.

Í þessari stuttu upptalningu má heldur ekki gleyma þeirri nýbreytni sem félagið reyndi á haustfundi, í tilefni 50 ára afmælis, en þá fórum við úr húsi á viðburð í stað hefðbundinna veitinga eftir fund. Stjórn ákvað einnig að bjóða félagsmönnum í gönguferð í Þórsmörk síðastliðið haust í tengslum við 50 ára afmælið en það vildi ekki betur til en svo að haustlægðirnar dundu yfir okkur einmitt á sama tíma svo ferðinni var frestað um óákveðinn tíma en verður farin næsta vor í staðinn og munum við auglýsa hana með góðum fyrirvara. En að lokum viljum við hjá Félagi lífeindafræðinga nota tækifærið og óska félagsmönnum öllum gæfuríks komandi árs .

Kveðjur, Gyða og Margrét.