Skip to main content
AðalfundirKjaramál

Fréttir af aðalfundi 2018

By apríl 27, 2018No Comments

Aðalfundur FL var haldin í gær, 26.04.2018 og var vel mætt, en 36 skráðu sig í gestabók. Hefðbundin aðalfundarstörf gengu vel. Reikningar félagsins og skýrsla stjórnar hefur nú verið sett inn á innri vef félagsmanna eftir samþykkt. Á aðalfundi var fráfarandi formaður, Gyða Hrönn Einarsdóttir kvödd og þökkuð vel unnin störf undanfarin 4 ár en einnig lætur af störfum gjaldkeri félagsins, Sigurlína Dögg Tómasdóttir sem hefur setið í stjórn í sex ár sem er hámarkstími stjórnarsetu. Nýr formaður var kjörin Alda Margrét Hauksdóttir sem starfar hjá Hjartavernd og nýr fulltrúi í stjórn Kristín Bjarnadóttir, einnig hjá Hjartavernd og fögnuðu fundarmenn með lófataki og óskuðu þeim velfarnaðar í störfum sínum fyrir félagið okkar.

Í kjölfar nefndarfundar í vor lagðist stjórn yfir nefndir félagsins og lagði til breytingar sem fundurinn samþykkti. Sjóðsstjórnir Vísinda- og fræðslusjóðs og Hvatningasjóðs voru sameinaðar í eina sjóðsstjórn með það í huga að sameina sjóðina, eins voru sameinaðar Fræðslu- og endurmenntunarnefnd og ritnefnd og lagt til að nefndin einbeitti sér í auknum mæli að útgáfu pistla á vef félagsins og hætti blaðaútgáfu.

Undir liðnum önnur mál voru rædd nokkur mál, meðal annars kom fram á fundinum ánægja vegna velgengni lífeindafræðinga og voru tveir nefndir sérstaklega: Guðrún Björt Yngvadóttir sem er að taka við sem alþjóðaforseti Lionshreyfingarinnar og Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch sem er að skapa sér nafn í vísindaheiminum. Undir liðnum önnur mál var einnig samþykkt ályktun aðalfundar vegna kjaradeilu ljósmæðra sem staðið hefur yfir nú í 7 mánuði og virðist vera í miklum hnút.

Ályktun aðalfundar FL 2018

Í vor skrifaði FL undir kjarasamning ásamt fjölda annarra aðildarfélaga innan BHM. Með kjarasamningi þessum fylgdi yfirlýsing sem kvað m.a. á um átak í heilbrigðismálum og að stefna skuli að því að skapa eftirsóttan starfsvettvang fyrir heilbrigðisstarfsmenn. Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að ráðist verði í úrbætur á starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstarfsmanna í samráði við aðildarfélög BHM. Undir yfirlýsingu þessa skrifa þrír ráðherrar, forsætis-, fjármála og efnahags- og heilbrigðisráðherra. 

Ljósmæðrafélag Íslands stendur nú í kjaradeilu við ríkið. Félagsmenn LMFÍ hafa hvað lengsta grunnmenntun aðildarfélaga innan BHM en á vef fjármálaráðuneytis má sjá á gögnum frá í desember 2017 að meðalgrunnlaunasetning ljósmæðra þarf að hækka um tæplega 44.000 krónur til að ná meðalgrunnlaunasetningu BHM. Aðalfundur FL skorar á stjórnvöld að sýna nú að fyrrnefnd yfirlýsing sé ekki innantómt loforð og hefja úrbætur með því að leiðrétta samstundis launasetningu ljósmæðra með myndarlegum hætti.