Stjórn Félags lífeindafræðinga hefur fjallað um skipulagsbreytingar á Rannsóknarsviði sem kynntar voru þann 18. nóvember síðastliðinn og ályktun stjórnar læknaráðs sem birt var á heimasíðu LSH þann 7.desember síðastliðinn.
Við viljum koma því á framfæri að við fögnum mjög þeim skipulagsbreytingum sem kynntar hafa verið og teljum það framfaraskref að staðfesta í skipuriti þá framkvæmd sem viðgengist hefur í stjórnun rannsóknarstofa um langa hríð. Framþróun felst í því að festa í sessi og gera opinbera þá nútíma stjórnunarhætti og teymisvinnu sem þarf til að reka metnaðarfullar rannsóknarstofur. Skipuritsbreytingarnar eru staðfesting á stjórnunarlegri ábyrgð fagstjórnenda sem hafa yfirgripsmikla fagþekkingu bæði á starfssemi og störfum lífeindafræðinga á viðkomandi deildum.
Ályktun læknaráðs kom okkur heldur í opna skjöldu og hlýtur að byggja á misskilningi. Eingöngu er verið að staðfesta með skipuriti verklag sem er nú þegar til staðar en ekki verið að skerða faglega ábyrgð lækna. Það er reyndar okkar trú að ef verið væri að gera þær breytingar sem lýst er í bréfi læknaráðs þá ættu læknar að fagna því að fá aukið svigrúm til að sinna faglegri ábyrgð þar sem dagleg stjórnun þjónusturannsókna væri ekki lengur á þeirra könnu.
Að lokum viljum við koma því á framfæri að við höfnum því alfarið að öryggi sjúklinga sé ógnað eða að það brjóti í bága við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu verði það staðfest í opinberu skipuriti að lífeindafræðingur sé deildarstjóri sem heyri undir framkvæmdarstjóra sviðsins.