Kæru félagsmenn.
Nú líður að aðalfundi félagsins, en hann verður haldinn þann 26. apríl n.k. kl 16.30 í húsnæði BHM, Borgartúni 6, Reykjavík.
Hér með er óskað eftir framboðum og/eða tilnefningum í stjórn og nefndir félagsins. Lögum samkvæmt er stjórn félagsins kjörin á aðalfundi og eru laus sæti í stjórn. Samkvæmt lögum FL er hámarksstarfsstími félagsmanns í stjórn 6 ár en fulltrúar eru kjörnir til tveggja ára í senn, þrír eða fjórir til skiptis. Við hvetjum því áhugasama til að gefa sig fram og senda okkur línu. Stjórn fundar að jafnaði einu sinni í mánuði en sjaldnar yfir sumartímann.
Margir félagsmenn hafa haft samband og boðist til að starfa áfram fyrir félagið sitt og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Einhverjir félagsmenn hafa einnig haft samband og látið vita af því að þeir geti ekki starfað áfram að svo stöddu. Það eru því næg tækifæri fyrir áhugasama að koma og taka þátt í að byggja upp innviði félagsins. Stjórn og nefndir funduðu í febrúar og komust að þeirri niðurstöðu að tímabært væri að gera breytingar á nefndum á komandi aðalfundi. Eitt af því sem var rætt er að færa hvatningarsjóð undir fræðslu- og endurmenntunarsjóð, sameina ritnefnd við fræðslu og endurmenntunarnefnd og breyta þar með hlutverki ritnefndar og auka áherslu á pistla á heimasíðu í stað blaðaútgáfu. Einnig veltum við fyrir okkur að útvíkka hlutverk siða- og samskiptanefndar í ljósi umræðu um #metoo og einelti á vinnumarkaði.
Mér er ánægja að segja frá því að eitt staðfest framboð hefur borist til formennsku í félaginu en framboðsfrestur til formanns rennur út 19. apríl næstkomandi. Formlegt fundarboð mun verða sent félagsmönnum rafrænt tveim vikum fyrir aðalfund. Engar lagabreytingartillögur liggja fyrir að svo stöddu en mikilvægt er að þær berist stjórn tímalega. Mikilvægt er að ræða á aðalfundi hugmyndir um breytt fyrirkomulag í tengslum við rafrænar kosningar en sífellt fleiri fagstéttarfélög eru að færa sig í þá átt og þurfum við að meta hvort það er eitthvað sem hentar okkar félagi.
Að lokum minnum við á skráningu í afmælisferðina í Þórsmörk laugardaginn 5.maí. Afmælisferðin sem datt upp fyrir í fyrra vegna vondrar veðurspár. Skráningu lýkur á aðalfundardegi, 26. apríl og fer fram hér: https://goo.gl/forms/Ngex4d89jcNmeMoB3
Stjórn FL.