Af ályktun sl. aðalfundar Læknafélags Reykjavíkur um trúnaðarbrest sem birtist m.a. á heimasíðu þeirra á http://www.lis.is/lis/Frettir/nanar/8418/frettir-fra-adalfundi-lr og skrifað var um á Vísi.is hér: http://www.visir.is/g/2017170539911 má draga þá ályktun að yfirlæknar og sérfræðilæknar rannsóknarstofa Landspítala telji öryggi sjúklinga ógnað af nýlegum skipuritsbreytingum á sviðinu þar sem deildarstjóri, lífeindafræðingur, er færður að hlið yfirlæknis í skipuriti. Nú sýnir skipuritið álíka teymisstjórnun deildanna eins og tíðkast á flestum öðrum deildum Landspítala.
Stjórn Félags lífeindafræðinga lýsir furðu sinni á þessari afstöðu fundarins og við teljum að hann endurspegli mikla vanþekkingu á menntun lífeindafræðinga, hæfni og þekkingu. Sífellt stærri hópur lífeindafræðinga lýkur nú námi á M.S stigi og fleiri og fleiri bæta einnig við sig sérhæfðara námi sem tengist stjórnun og mannauðsmálum.
Að auki telur stjórn FL skipuritsbreytingarnar sem ályktað er um ekki vera breytingu á starfssviði, hvorki deildarstjóra eða yfirlækna. Hér verið að uppfæra skipurit til að endurspegla þá stjórnun sem viðhöfð hefur verið um langa hríð á rannsóknarstofunum. Yfirlífeindafræðingar/deildarstjórar hafa um árabil séð um að stýra daglegum störfum lífeindafræðinga, ritara og margra annarra sérhæfðra starfsmanna; séð um innkaup á daglegum rekstrarvörum og haft umsjón með daglegum rekstri deildanna. Hér er að okkar mati ekki verið að taka af yfirlæknum faglegt forræði yfir rannsóknarstofum, þeir munu áfram bera ábyrgð á því hvaða rannsóknir eru gerðar og með hvaða aðferðum þær eru framkvæmdar, líkt og þeir gerðu fyrir breytingar. Lífeindafræðingarnir munu sem fyrr stýra daglegri framkvæmd.
Ef við horfum til næstu nágranna okkar, norðurlanda, þá eru áratugir síðan slíkar skipuritsbreytingar voru gerðar þar, bæði í Noregi, Danmörku og í Svíþjóð. Raunin er reyndar sú að þar er tilhneyging til að hverfa frá slíku teymis-skipulagi og aftur yfir í einn stjórnanda á rannsóknarstofum, og er það þá algengara en ekki að sá stjórnandi sé lífeindafræðingur. Nú eru þar fjölmargar rannsóknarstofur sem ýmist eru vottaðar eða faggildar skv. ISO 15189 sem reknar eru af lífeindafræðingum. Engu að síður starfa þar sérfræðilæknar sem bera ábyrgð ákveðnum verkþáttum eins og staðallinn kveður á um. Stjórn FL veltir því fyrir sér hvort við á Íslandi eigum ekki að stefna þangað líka? Að lífeindafræðingar stýri og beri fulla ábyrgð á rekstri rannsóknarstofa Landspítala? Sannarlega má finna lífeindafræðinga sem hafa til þess bæði menntun og hæfni. Við leggjum það allavega til ef ekki fást til starfa á rannsóknarstofurnar fagmenn sem hafa tileinkað sér teymisvinnubrögð.
Stjórn FL harmar þann óróa sem verið hefur á rannsóknarstofunum vegna þessara breytinga. Þetta hefur haft slæm áhrif á starfsemina, á alla starfsmenn, og var varla á það bætandi þar sem mikill vöntun hefur verið á lífeindafræðingum til starfa og álag mikið vegna skorts á nýliðun en stór hópur hefur verið að fara á eftirlaun. Nýir lífeindafræðingar staldra stutt við vegna viðvarandi láglaunastefnu, mikils álags, samsetningar starfsmannahópsins og skorts á sérfræðistöðum. Stjórn FL hvetur lækna og lífeindafræðinga að taka höndum saman og takast á við það verkefni að byggja upp rannsóknarstofur LSH svo um verði að ræða framsækinn þekkingarvinnustað þar sem fagmennska er í fyrirrúmi, samskipti einkennast af vinsemd og virðingu, stað þar sem ungir og upprennandi visindamenn og aðrir fagmenn hafa áhuga á að starfa á.