Skip to main content
Fagmál

Starf við rannsóknir – meistaraverkefni

By ágúst 4, 2009nóvember 15th, 2018No Comments

Við leitum að líffræðingi, lífefnafræðingi eða lífeindafræðingi til starfa við rannsóknarverkefnið: „Arfgengar og starfrænar orsakir einstofna mótefnahækkunar og skyldra B-eitilfrumusjúkdóma“. Ætlunin er að ráða í starf í haust með það fyrir augum að skipuleggja meistaraverkefni sem hæfist um áramót.

Verkefnið hófst í núverandi mynd vorið 2006 og er styrkt af Markáætlun RANNÍS um erfðafræði í þágu heilbrigðis. Einn meistaranemi útskrifaðist 2008, annar byrjaði ársbyrjun 2009 og nú er ætlunin að bæta þeim þriðja við. Rannsóknarverkefninu er stjórnað af prófessor í frumulíffræði við læknadeild Háskóla Íslands og tveimur blóðmeinafræðingum. Einnig starfar með okkur lífeindafræðingur að hluta og samstarf er m.a. við litningarannsóknadeild LSH og NimbleGen.

Verkefnið í hnotskurn: Sjúkdómar sem lýsa sér með afbrigðilegri einstofna fjölgun á frumum sem framleiða mótefni geta legið í ættum. Fundist hafa 8 slíkar fjölskyldur á Íslandi og skapa þær efnivið til leitar að arfgengum og starfrænum orsökum þessara sjúkdóma.
Staðan nú: Fundist hefur starfrænt afbrigði sem nú er verið að rannsaka frekar með frumuræktunarlíkani sem líkir eftir aðstæðum við B-eitilfrumusvörun í líkamanum.

Auglýst starf: Starfshlutfall, vinnutími og launakjör eftir samkomulagi. Í ágúst verður aftur safnað sýnum. Væntanlegum starfsmanni er meðal annars ætlað að einangra RNA og undirbúa sýni fyrir örflögugreiningu á genatjáningu hjá NimbleGen. Þegar fyrstu niðurstöður liggja fyrir seinna í haust verða á grundvelli þeirra teknar ákvarðanir um framhaldið og skilgreint meistaraverkefni um miðjan október.

Upplýsingar veita (vinsamlegast sendið fyrirspurnir á öll 3 netföngin vegna sumarleyfa):
Helga M. Ögmundsdóttir, helgaogm@hi.is
Hlíf Steingrímsdóttir, hlifst@landspitali.is
Vilhelmína Haraldsdóttir, vilhehar@landspitali.is