Í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er á íslenskum vinnumarkaði telur Bandalag háskólamanna nauðsynlegt að koma eftirfarandi á framfæri:
Tryggja verður samnings- og lögbundin rétt launafólks.
Við erfiðar aðstæður er umfram allt nauðsynlegt að þess sé vandlega gætt að ákvæði kjarasamninga séu virt og að samnings- og lögbundinn réttur launafólks sé ekki fyrir borð borinn.
Launþegar beittir þrýstingi.
Víða er nú beitt þeirri aðferð að beita launþega þrýstingi um að undirrita breytingar á ráðningarsamningi til lækkunar á kjörum og er það í mörgum tilvikum gert án nokkurs umþóttunartíma eða uppsagnarfrests. Þá er ekki gert ráð fyrir að um tímabundnar ráðstafanir sé að ræða. Við aðstæður eins og nú ríkja eru slíkir samningar gerðir án þess að nokkurt jafnræði sé með samningsaðilum. Dæmi eru um að launþegar eru nánast þvingaðir, af aðstæðum og launagreiðanda, til að undirrita samningstillögur launagreiðanda, vegna þeirrar ógnunar að ella þurfi að grípa til harðari aðgerða, jafnvel uppsagna. Það er því sanngirniskrafa að við slíka samningagerð sé þess gætt að draga úr þvingunum og íþyngingu eftir því sem unnt er.
Tímabundin ráðstöfun.
Þar sem samdráttur í efnahagslífi er tímabundinn er jafnframt eðlilegt að breytingum á ráðningarkjörum séu sett ákveðin tímamörk og að þeim tíma liðnum taki fyrri kjör gildi aftur án sérstakrar ákvörðunar.
Umþóttunartíma vegna breytinga á ráðningarsamningi.
Það er allsendis óásættanlegt að launþegum sé gert að undirrita breytingar á ráðningasamningi innan örfárra daga frá því samningsdrög eru lögð fyrir þá eða jafnvel um leið. Hver og einn verður að fá eðlilegan umþóttunartíma, svigrúm til að ráðfæra sig við þá sem hann telur þörf á og átta sig á þeim áhrifum sem fyrirhugaðar breytingar hafa.
Uppsagnarfrestur ráðningarkjara eru þrír mánuðir.
Það er ekki síður mikilvægt að þegar samningur um breytingar á ráðningasamningi hefur verið undirritaður fái launþegi tíma til aðlögunar að breyttum kjörum. Hér er um framfærslu launþega að ræða og mikilvægt að hann hafi tíma til að gera ráðstafanir varðandi fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Á íslenskum vinnumarkaði er slíkur aðlögunartími þrír mánuðir.
Samningar um lægri dagvinnulaun en kjarasamningar kveða á um eru ógildir.
Ástæða er til að leggja áherslu á að óheimilt er að ákveða kjör sem eru lakari en þau lágmarkskjör sem kjarasamningar kveða á um, sbr. lög nr. 55/1980. Auk ákvæða um laun fyrir dagvinnu eru í kjarasamningum tiltekin laun fyrir yfirvinnu og breytingar á launum vegna frávika í vinnutíma, svo sem vaktavinnu. Þessi ákvæði hafa öll sama gildi og það er til dæmis óheimilt að krefja launþega um vinnuframlag í yfirvinnu án þess að fyrir það sé greitt. Stofnanasamningar eru hluti kjarasamnings og ekki má víkja frá þeim til lækkunar.
BHM hvetur launþega að hafa framagreind atriði í huga og að hafa samband við stéttarfélag sitt áður en þeir undirrita samning um breytingar á ráðningarkjörum.