Skip to main content
Starfsumhverfi

Hugleiðingar frá félagsmanni

By maí 17, 2017nóvember 15th, 2018No Comments

Eftirfarandi bréf fengum við frá félagsmanni og þótti ástæða til að birta það hér, kærar þakkir fyrir þörf orð og góða hugleiðingu Martha.

Hugleiðingar um deildarstjóra og lífeindafræði
 
Mig langar til að deila með ykkur hugsunum sem hafa komið upp í hugann eftir að stjórnunarábyrgð sem yfirlífeindafræðingar báru svo sannarlega í verki hefur nú verið viðurkennd í raun. Eftir áratuga baráttu eru lífeindafræðingar nú deildarstjórar á stærstu rannsóknastofunum og starfa þar við hlið yfirlækna. Hvor þessara stjórnenda um sig ber sinn hluta af ábyrgðinni á stafsemi rannsóknadeildanna og framkvæmdastjóri rannsóknasviðs er þeirra næsti yfirmaður.
 
Vitað var að lífeindafræðingar myndu mæta andstöðu vegna þessa, en kannski ekki hve langt yrði gengið. Þannig að meira hefur mætt á þessum fyrstu deildarstjórum en búist var við. Ég er einlæglega þakklát  þeim fyrir að hafa ekki gefið árar í bát heldur haldið áfram og tekist á við ýmiskonar andstreymi ásamt því að reka þessar mikilvægu deildir og móta stefnuna í ljósi þess að nú er fyrir hendi umboð til að gera breytingar.
 
Mig grunar að marga daga hafa deildarstjórarnir okkar farið heim með hnút í maganum yfir hlutum sem ekki voru taldir upp í starfslýsingunni og voru þeim erfiðari úrlausnar en fagleg viðfangsefni sem þar er lýst. Þess vegna er það mjög mikilvægt að við lífeindafræðingar gerum allt sem við getum til að standa fast við bakið á þeim, styðjum þá með ráðum og dáð og viðukennum sjálf ábyrgð þeirra. Deildarstjórarnir eru að setja störf lífeindafræðinga í farveg sem mótast af sýn lífeindafræðinga á starf sitt og ábyrgð. Hvernig til tekst skiptir mjög miklu máli fyrir þróun fagsins/stéttarinnar.
 
Lífeindafræðingar bera faglega og stjórnunarlega ábyrgð á störfum sínum þar sem aðferðafræði rannsókna, sjúkdómafræði, gæðastjórnun og öryggisvarsla tvinnast saman. Það er þetta sem nú hefur endanlega verið viðurkennt og við þetta miðast menntun í lífeindafræði. Góð þekking og leikni í þessum þáttum er það sem einkennir góðan lífeindafræðing – sem síðan tilheyrir hópi fagstétta í heilbrigðisvísindum sem vinna saman fyrir sjúklinginn.
 
Með félagskveðju
Martha Á. Hjálmarsdóttir