Skip to main content
Fagmál

Gyða Hrönn Einarsdóttir – grein í Mbl.

By apríl 30, 2012nóvember 15th, 2018No Comments

Hvað eru lífeindafræðinga að sýsla á Landspítala?
Hverjir eru lífeindafræðingar kunna sumir að spyrja og við hvað starfa þeir? Á Landspítala (LSH) starfa 157 lífeindafræðingar á ýmsum sviðum rannsókna. Lífeindafræði er kennd í læknadeild Háskóla Íslands og er þrjú ár til B.Sc prófs. Til að öðlast starfsréttindi þarf að ljúka einu ár til viðbótar, ljúka þarf því 120 einingum til að fá að starfa sem lífeindafræðingur á LSH.

Við lífeindafræðingar sem störfum á LSH erum ekki mjög sýnilegur hópur þar sem starf margra okkar fer að miklu leyti fram á rannsóknarstofum og samskipti okkar við viðskiptavini LSH eru ekki mjög mikil augliti til auglitis. Það kann því að vekja undrun margra að lífeindafræðingar eru fjórða stærsta fagstétt spítalans á eftir hjúkrunarfræðingum, læknum og sjúkraliðum. Margir viðskiptavinir spítalans halda að meginstarf lífeindafræðinga sé falið í því að taka blóðprufur því það er oft eini þáttur starfs okkar sem er sýnilegur.

Í lífeindafræði er kennd ítarleg aðferðarfræði rannsókna auk sjúkdómafræði og ýmissa annara sérgreina lífeindafræðinnar. Á rannsóknarsviði LSH eru átta sérgreinar lækningarannsókna, blóðmeinafræði, erfða- og sameindalæknisfræði, klínísk lífefnafræði, líffærameinafræði, myndgreining, ónæmisfræði, sýklafræði og veirufræði. Á öllum þessum sérgreinarannsóknarstofum, utan myndgreiningu, eru lífeindafræðingar stærsti hluti starfskraftsins. Þar sinna lífeindafræðingar rannsóknum, vísindastörfum, gæðaeftirliti, þróun verkferla, tölvuvinnslu og daglegu viðhaldi tækjabúnaðar.

Á flestum rannsóknarstofunum bera lífeindafræðingar ábyrgð á og gefa út rannsóknarniðurstöður auk þess að svara fyrirspurnum og leiðbeina öðru heilbrigðisstarfsfólki varðandi sýni og sýnameðhöndlun. Lífeindafræðingar starfa einnig á hjartarannsóknarstofu LSH, á hjarta- og lungnavélum spítalans, við ísótóparannsóknir og í Blóðbankanum. Af þessari upptalningu má sjá að lífeindafræðingum býðst mjög fjölbreyttur starfsvettvangur á Landspítala og algengt er að lífeindafræðingar sérhæfi sig í ákveðinni sérgrein að loknu grunnnámi.

Landspítali er alls ekki eini starfsvettvangur lífeindafræðinga, menntun þeirra nýtist í mjög fjölbreyttum störfum bæði utan og innan heilbrigðisgeirans. Margir lífeindafræðingar starfa á almennum markaði hjá ýmsum líftæknifyrirtækjum, í lyfjaiðnaði, hjá framleiðslufyrirtækjum, við sölumennsku, hjá einkareknum rannsóknarstofum og svo mætti lengi telja. Ef þessi stutti pistill hefur gert það að verkum að einhverjir séu nú örlítið upplýstari um starf og mikilvægi lífeindafræðinga í samfélaginu þá er markmiðinu náð.

Gyða Hrönn Einarsdóttir, lífeindafræðingur.

Leave a Reply