Skip to main content
Fagmál

Edda Sóley Óskarsdóttir – grein í mbl.

By apríl 27, 2012nóvember 15th, 2018No Comments

Eftir Eddu Sóley Óskarsdóttur: 
„Starf lífeindafræðinga felst í margvíslegum mælingum og greiningum 
þeirra einda, efna og frumna sem mannslíkaminn er samsettur úr.“ 

Nám í lífeindafræði við Háskóla Íslands hófst haustið 2005 í nýrri námsbraut í lífeindafræði innan læknadeildar. Frá árinu 1966 og fram til þess tíma hafði menntun þeirra verið í Tækniháskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík.

Hvað gera lífeindafræðingar? Gagnstætt því sem margir halda felst starf lífeindafræðinga ekki fyrst og fremst í blóðtökum heldur margvíslegum mælingum og greiningum þeirra einda, efna og fruma sem mannslíkaminn er samsettur úr. Margir lífeindafræðingar koma aldrei nálægt blóðtökum og sjá aldrei sjúklinga í starfi heldur einungis sýni frá sjúklingunum.

Meginmarkmið námsins er að veita grunnmenntun í lífeindafræði þannig að nemandi geti tekist á við frekara nám sem veitir réttindi til að starfa sem lífeindafræðingur eða æðri prófgráður eftir því hve langt er haldið. Mikilvægi náms í lífeindafræði liggur í þekkingu sem stuðlar að öruggri greiningu, meðferð og forvörnum gegn sjúkdómum en einnig getu og þekkingu til starfa á öllum rannsóknastofum innan heilbrigðisgeirans. Námið hefur einnig nýst vel í störfum við matvælaframleiðslu, líftækni eða þungaiðnað.

Í náminu fá nemendur tækifæri til að takast á við rannsóknir á sýnum frá mannslíkamanum sem gerðar eru á mismunandi sviðum lífeindafræðinnar, svo sem blóðbankafræði, blóðmeinafræði, erfðafræði, klínískar lífefnafræði, klínískar lífeðlisfræði, ónæmisfræði, sameindaerfðafræði, sýklafræði og vefjameinafræði.

Námið og starfið hentar vel þeim sem hafa áhuga á lífvísindum og vilja búa sig undir að taka þátt í fjölbreytilegu starfi á flestum gerðum rannsóknastofa.

Til að verða lífeindafræðingur þarf að ljúka fyrst þriggja ára grunnnámi með BS-prófi og til að öðlast starfsréttindi sem lífeindafræðingur þarf að bæta við sig einu ári og diplómaprófi í lífeindafræði en það er einnig fyrra árið í meistaranámi í lífeindafræði.

Stúdentspróf er og hefur alltaf verið krafa til þeirra nema sem hafa hug á námi í lífeindafræði og eru samkeppnispróf í lok fyrsta misseris. Á fyrsta kennslumisseri er lögð mikil áhersla á raungreinar svo sem efnafræði, lífefnafræði, lífeðlisfræði, líffærafræði. Einnig er tækjafræði og lífefna- og frumulíffræði kennd á fyrsta ári. Þá er lagður grunnur að þekkingu á framsetningu vísindalegra gagna og tölfræði.

Á öðru ári og þriðja ári er meiri áhersla lögð á að dýpka þekkingu nemanna á aðferðafræði hinna ýmsu greina lífeindafræðinnar en þá eru námskeið í aðferðafræði og sjúkdómafræði klínískrar lífefnafræði og lífeðlisfræði, blóðmeinafræði, ónæmisfræði, sýklafræði, líffærameinafræði, erfðafræði og sameindaerfðafræði að ógleymdri blóðbankafræði og ísótóparannsóknum. Á fyrra ári meistaranáms, sem allir þurfa að taka til að öðlast starfsréttindi, takast nemarnir á við sérhæfðari aðferðafræði og vísindarannsóknir. Þá er einnig lögð áhersla á stjórnun og hagnýta lífupplýsingafræði. Í meistaranáminu og síðar í doktorsnámi geta nemendur haldið áfram að bæta þekkingu sína og hæfni í vísindarannsóknum. Í kennslu á öllum námsárum er lögð áhersla fjölbreytta kennsluhætti með fyrirlestrum, verklegri kennslu, hóp- og einstaklingsverkefnum.

Að loknu námi halda út í atvinnulífið einstaklingar sem hafa haldgóða þekkingu sem nýtist á öllum rannsóknastofum, þekkja aðferðafræði sem nýtist við allar rannsóknir, þekkja hugmyndafræði gæðastjórnunar og gagnakerfa, hafa skilning á hugmyndum og aðferðafræði stjórnunar, geta framkvæmt vísindarannsóknir og gert þeim skil í ræðu og riti. Síðast en ekki síst: hafa skilning á nauðsyn siðfræði og góðra hátta í mannlegum samskiptum.
Höfundur er lífeindafræðingur.

Leave a Reply