Skip to main content
Fréttir

Fræðsluferð til Danmerkur

By október 10, 2024No Comments

Nokkur aðildarfélög innan BHM, sem deila húsnæði í Borgartúni 27 annarri hæð fóru í fræðsluferð til Kaupmannahafnar í september síðastliðnum. Þetta voru fulltrúar frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, Félagi háskólakennara, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Félagi lífeindafræðinga, Iðjuþjálfafélagi Íslands, Sálfræðingafélagi Íslands og Þroskaþjálfafélagi Íslands auk SIGL þjónustuskrifstofu. Undirbúningur hafði staðið yfir í nokkra mánuði og loks kom að því að 13 manns legðu land undir fót þar með taldar formaður FL og framkvæmdastjóri SIGL þjónustuskrifstofu.

Fyrri daginn voru höfuðstöðvar SL (Socialpædagogernes landsforbund) heimsóttar. SL er stærsta fag- og stéttarfélag þeirra sem hafa fagmenntun til að sinna velferðarþjónustu og stuðningi við fatlað fólk, börn og ungmenni í viðkvæmri stöðu, fólki með geðræna erfiðleika og fíkniefnaneytendur svo eitthvað sé nefnt. Félagsfólk SL er um 39.000 talsins.

Til umfjöllunar voru kjarasamningarnir 2024 á opinberum vinnumarkaði í Danmörku sem var þríhliða ferli með aðkomu stéttarfélaga, vinnuveitenda og stjórnvalda. Fram kom meðal annars að þrátt fyrir afar þrönga stöðu og skilyrði af hálfu viðsemjenda þá varð niðurstaðan mun hagfelldari fyrir félagsfólk í SL en væntingar stóðu til um í upphafi. Þetta kom einkum til af því að stjórnvöld settu meira fjármagn í samningana en áður hafði verið gert meðal annars til að bæta kjör kvennastétta sem starfa í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Einnig var farið yfir það hvernig SL nýtir samfélagsmiðla einkum í tengslum við upplýsingamiðlun sem tengist kjaraviðræðum. Notkun miðlanna felur í sér ýmsar áskoranir eins og þegar umræðan þróast í að vera særandi og hatursfull. Tækifærin eru svo sannarlega einnig til staðar og samfélagsmiðlar þykja góð leið til að koma staðreyndum og boðskap á framfæri við félagsfólk og almenning. Félag lífeindafræðinga vonast til að geta nýtt þessi tækifæri með nýrri Facebook síðu og Instagram síðu.

Seinni daginn var FAOS (Forskningscenter for Arbejdsmarkeds- og Organisationsstudier á Sociologisk Institut) heimsótt en það er rannsóknasetur innan Kaupmannahafnarháskóla þar sem kastljósinu er beint að rannsóknum á vinnumarkaði. Hópurinn hlýddi á erindi um þróun og stöðu hins danska vinnumarkaðslíkans sem á sér sögu síðan 1899. Rædd var þróun áherslna frá nýfrjálshyggjunni til samhæfingar, meira valdajafnvægis, stöðugleika og jafnræðis á vinnumarkaði. Farið var yfir hvernig „merki“ markaðarins verður til og hvað liggur þar að baki.

Síðasta heimsóknin var í DM en það er stéttarfélag fyrir háskólafólk með fimm ára háskólamenntun. Saga DM nær aftur til 1918 og voru félagar þá 149 talsins. Í dag er félagsfólk yfir 75.000 með fjölbreytta háskólamenntun og þar af eru um 20.000 háskólanemar. Sagt var frá starfi DM, stefnu þess og áskorunum.

Þetta voru afar fróðlegir dagar og óhætt að fullyrða að hópurinn hafi snúið aftur heim til Íslands reynslunni ríkari.