Reglur fyrir Kjaradeilusjóð Félags lífeindafræðinga
Síðast breytt á aðalfundi 1998
1.gr.
Sjóðurinn heitir Kjaradeilusjóður Félags lífeindafræðinga. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr.
Tilgangur sjóðsins er að styrkja félagsmenn FL sem ekki geta stundað vinnu vegna kjaradeilna sem félagið er aðili að. Heimilt er einnig að greiða úr sjóðnum kostnað vegna framkvæmda verkfalls, þó ekki venjulegan samningakostnað né þóknun fyrir verkfallsvörslu.
3. gr.
Aðild að sjóðnum eiga þeir félagsmenn FL sem félagið semur fyrir. Skulu þeir greiða gjald til sjóðsins sem ákveðið skal á aðalfundi.
4. gr.
Stjórn sjóðsins skal skipuð fimm mönnum. Formaður og gjaldkeri félagsins eiga fast sæti í sjóðsstjórn en aðrir stjórnarmenn skulu kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn úr hópi þeirra félagsmanna sem FL semur fyrir. Skal einn stjórnarmaður kosinn það ár sem félagsformaður er kosinn, en tveir hitt árið. Hætti stjórnarmaður á fyrra ári kjörtímabils skal annar kosinn í hans stað á næsta aðalfundi og þá til eins árs. Varaformaður og ritari félagsins eru varamenn í sjóðsstjórn.
5. gr.
Hlutverk sjóðsstjórnar er að annast vörslu og ávöxtun sjóðsins. Hún úthlutar einnig styrkjum úr honum. Jafnframt hefur hún heimild til þess að lána fé til sjóðsfélaga. Fjárhagur sjóðsins skal aðskilinn frá félagssjóði FL.
6. gr.
Kjörnir endurskoðendur félagsins skulu jafnframt vera endurskoðendur sjóðsins.
7. gr.
Fundargerðir sjóðsstjórnar skal skrá í sérstaka fundargerðabók. Auk þess skal stjórnin halda sérstaka gjörðabók, þar sem skrá skal allar styrkveitingar til félaga og ennfremur óreglubundin framlög til sjóðsins, ef einhver eru.
8. gr.
Rétt til styrks úr sjóðnum á sérhver aðili að honum, sem ekki getur stundað vinnu sína vegna kjaradeilu Félags lífeindafræðinga, enda sé hann skuldlaus við félagið þegar styrkveiting fer fram og hafi greitt framlag sitt til sjóðsins. Ekki skal þó greiða styrki úr sjóðnum vegna fyrstu viku vinnustöðvunar. Þegar vinnudeila er fyrirsjáanleg skal stjórn sjóðsins gera áætlun um greiðslur úr sjóðnum og útbúa almennar reglur um úthlutun styrkja til félagsmanna. Að jafnaði skulu úthlutunarreglur ræddar á félagsfundi og leitað samþykkis hans.
9.gr.
Heimilt er að veita styrki úr sjóðnum til félagsmanna í öðrum stéttarfélögum sem eiga í vinnudeilum.
10. gr.
Verði sjóður þessi af einhverjum ástæðum að hætta störfum, skal ákvörðun um það og ráðstöfun eigna sjóðsins tekin á aðalfundi.
11. gr.
Reglum þessum má aðeins breyta á aðalfundi.
Ákvæði til bráðabirgða:
Í fyrstu stjórn kjaradeilusjóðs skulu þrír fulltrúar kjörnir þegar reglur þessar hafa verið samþykktar. Skal einn stjórnarmaður kosinn til næsta aðalfundar en tveir til næsta aðalfundar þar á eftir