Skip to main content
Fréttir

15. apríl er alþjóðadagur Lífeindafræðinga

By apríl 15, 2021No Comments

Í dag 15. apríl er alþjóðadagur Lífeindafræðinga.  Alþjóðasamtök Lífeindafræðinga vekja athygli alþjóðasamfélagsins á hlutverki Lífeindafræðinga í COVID-19 heimsfaraldrinum. Töku, meðhöndlun og greiningu COVID-19 sýna og annarar sýnatöku og til að fylgja eftir framvindu sjúkdómsins og bata þeirra einstaklinga sem veiktust. Það er skortur á lífeindafræðingum á heimsvísu. Því er mikilvægt nú sem áður að hvetja ungt fólk og þá sem huga að háskólanámi til að skoða það fjölbreytta og skemmtilega nám sem lífeindafræðin er. Lífeindafræðingar fást við rannsóknir á lífsýnum í þeim tilgangi að greina sjúkdóma, finna meðferðarmöguleika og fylgja þeim eftir.

Markmiðið með menntun lífeindafræðinga er að eftir nám búi þeir yfir fjölþættri þekkingu sem geri þá eftirsótta í vinnu á öllum tegundum rannsóknastofa á heilbrigðissviði og víðar. Að námi loknu geta þeir framkvæmt almennar rannsóknir og kunna skil á mikilvægum sérrannsóknum. Þeir hafa góðan skilning á þýðingu rannsókna við greiningu sjúkdóma. Þannig stuðla þeir að framförum í rannsóknum og læknavísindum. Lífeindafræðingar þekkja hugmynda- og aðferðafræði gæðastjórnunar. Þeir hafa færni til að gera vísindarannsóknir og getu til að gera þeim skil bæði í ræðu og riti. Kennsluaðferðir í Lífeindafræði eru fjölbreyttar og mikil áhersla er lögð á verklega þáttinn.

Á Íslandi eru 544 lífeindafræðingar skráðir með starfsleyfi þar af 285 sem eru 60 ára eða eldri. Meðalaldur starfstéttarinnar er yfir 50 ár og þó starfssvið okkar á einhverju þröngu sviði skarist á við aðrar fagstéttir þá krefjast störf lífeindafræðinga þeirrar menntunar og sérfræðiþekkingar sem þeir búa yfir að námi loknu. Lífeindafræðingar eru fagstéttin sem alla jafnan er ekki áberandi í umfjöllun líðandi stundar og því þarf að breyta.

Það er von okkar að landsmenn munu kynnast okkur betur á næstu mánuðum og komandi árum. Þetta verður gert með fjölbreyttum kynningum og örsögum af raunverulegum dæmum af vinnu okkar. Störfin okkar sem eru mikilvæg krefjast öll sérþekkingar og það er það sem við viljum sýna. Vegna eðlis starfanna sem að stórum hluta eru unnin á rannsóknastofum eru þau oft ósýnileg launagreiðendum, skjólstæðingum okkar og öðru heilbrigðisstarfsfólki. Störfin eru engu að síður mjög mikilvæg þar sem lífeindafræðingar fást við rannsóknir á lífsýnum í þeim tilgangi að greina sjúkdóma, finna meðferðarmöguleika og stuðla að framförum í læknavísindum.