Störf og verksvið
Verksvið lífeindafræðinga
Framkvæmd rannsókna á mælanlegum þáttum í líkama manna og stundum dýra. Rannsóknir á sýnum úr líkama manna og dýra. Mælingar á utanaðkomandi áhrifum sem hafa áhrif á heilsufar lífvera þar með taldir erfðaþættir og efnaáhrif. Hvort heldur um er að ræða þjónusturannsóknir sem gagnast við sjukdómsgreiningar, eftirliti og eftirfylgni meðferða á sjúkdómum eða vinna við vísindarannsóknir sem efla þekkingu á viðkomandi sviði.
- Sýnataka og/eða ráðgjöf um sýnatökur og aðra þætti í forrannsóknaferli sem geta haft áhrif á niðurstöður rannsókna.
- Fullvinnsla, sending rannsóknaniðurstaða til viðskiptavina og vinna við aðra þætti í eftirrannsóknaferli sem hafa áhrif á að réttar og raunhæfar niðurstöður berist þeim á réttum tíma.
- Ráðgjöf um túlkun niðurstaða og tengsl rannsókna.
- Stillingar tækja og umsjón um viðhald og viðgerðir.
- Þróun, mat og val á nýrri tækni, tækjum og aðferðum ásamt hagkvæmnimati.
- Þróun og uppsetning gæða- og öryggiskerfa sem ná til sýnatöku, meðferðar sýna, framkvæmdar rannsókna og meðferðar, vörslu og úrvinnslu sýna og gagna.
- Miðlun þekkingar til nemenda i lífeindafræði, nemenda í öðrum greinum heilbrigðisvísinda og til annarra heilbrigðisstarfsmanna.
- Stjórnun og ábyrgð eftir því sem siðareglur, lög og starfslýsing gefa tilefni til.
- Virk þátttaka í þeirri teymisvinnu sem árangursríkt heilbrigðiskerfi krefst.
Starfsvettvangur Lífeindafræðinga
Flestir lífeindafræðingar starfa á rannsóknastofum sjúkrahúsa og fyrirtækja í erfðagreiningu og lyfjaiðnaði, stofnunum sem þjóna landbúnaði og annars staðar þar sem krafist er góðra skipulagshæfileika og þekkingar á gæðakerfum.
Lífeindafræði er fjölbreytt og spennandi starf sem gefur víðatæka möguleika í starfi bæði hér á landi og erlendis. Störf í helstu greinum innan heilbrigðiskerfisins eru eftirfarandi:
Blóðbankafræði
Rannsóknir í blóðbankafræði miða að því að tryggja öryggi og velferð sjúklinga vegna blóðhlutagjafa. Blóðbankinn er eina sérhæfða stofnunin á svið blóðbanka- og blóðgjafaþjónustu. Rannsóknirnar felast m.a. í blóðflokkunum (ABO og Rhesus), fínflokkunum, mótefnaleit og mótefnagreiningu. Gerð eru krosspróf þurfi sjúklingar blóðgjöf og greinist mótefni í blóði hans fær hann blóðhluta með tilliti til þess. Í Blóðbankanum fer fram blóðsöfnun og blóðhlutavinnsla og þar er miðstöð Rhesusvarna á Íslandi. Fylgst er með gæðum blóðhlutanna með almennum blóðrannsóknum. Blóð allra blóðgjafa er skimað fyrir Hepatitis B, HBC og HIV. Fleira má nefna s.s. HLA- vefjaflokkanir og rannsóknir á stofnfrumum.
Blóðmeinafræði
Rannsóknir í blóðmeinafræði miða að greiningu frávika frá eðlilegri líkamsstarfsemi vegna sjúkdóma, áverka eða annarra þátta og fylgjast með framvindu meðferðar. Rannsóknir eru gerðar á blóði, þvagi, saur, mænuvökva, liðvökva og fleiri líkamsvökvum. Nefna má mælingar á blóðhag og sökki, litun, talningu og mat á blóðfrumum og mælingar á storkuþáttum. Notuð eru greiningartæki sem krefjast tækniþekkingar og nákvæms viðhalds, handaðferðir ýmiss konar, smásjárskoðun, þar sem sjálfstætt mat er lagt á frumur, kristalla, sýkla og fleira sem kann að sjást. Fylgst er með áreiðanleik niðurstaðna með innra og ytra gæðaeftirliti.
Frumufræði
Rannsóknir í frumufræði miða að greiningu á breytingum á sjúkum og heilbrigðum frumum. Meinatæknar í frumufræði vinna við skönnun fruma í ýmsum sýnum, svo sem leghálssýnum. Sýnin eru lituð með PAP-litun, afbrigðileg svæði eru merkt og metin og eldri sýni skoðuð. Unnið er samkvæmt ákveðnu gæðaferli. Á rannsóknastofu í sameinda- og frumulíffræðifræði er unnið að söfnun sýna í lífssýnabanka og unnið að ýmsum grunnrannsóknum varðandi krabbamein.
Ísótóparannsóknir
Rannsóknir á ísótópastofu miða að greiningu sjúkdóma með inngjöf geislavirkra efna í æð og fylgst er með upptöku þeirra í líffærum og dreifingu innan líffæra (skönnun). Upplýsingum um undirbúning og framkvæmd rannsókna er miðlað til deilda og sjúklinga. Geislavirk efni og efnasambönd eru notuð við rannsóknirnar og blöndun þeirra og mæling er undir ströngu gæðaeftirliti. Mælingar eru gerðar á geislavirkum blóð- og þvagsýnum. Eftirliti er haft með gæðum mynda- og mælitækja sem notuð eru við mælingar geislavirkra efna.
Litningarannsóknir
Rannsóknir á litningum miða að leit eða útilokun á litningagöllum sem leiða til sjúkdóma eða vanskapnaðar. Þessar rannsóknir eru gerðar með ræktun fruma úr ýmsum tegundum vefja sem eru meðhöndlaðir þannig að sem flestar frumur séu í skiptingu og að litningar séu sýnilegir þegar þeir eru skoðaðir í smásjá. Litningarannsóknir eru gerðar á legvatns- og fylgjuvefssýnum til þess að leita að litningagöllum í fóstrum. Einnig eru framkvæmdar litningarannsóknir á blóð- og húðsýnum úr einstaklingum sem hafa einkenni eða fjölskyldusögu sem bendir til litningagalla og mergsýnum frá einstaklingum með hvítblæði. Beitt er ýmsum litunaraðferðum, t.d. G-bandalitun og FISH (Fluorescent in situ hybridization). Ýmist er verið að skoða litningagerð sem heild eða einstök litningasvæði.
Lífeðlisfræði
Rannsóknir í lífeðlisfræði miða að greiningu og/eða útilokun á sjúkdómum í hjarta, lungum og æðakerfi líkamans. Rannsóknirnar eru gerðar með hjartalínuritum, áreynsluprófum, ómskoðunum, flæðimælingum, blóðþrýstingsmælingum og hjartaþræðingum. Kannað er rafkerfi hjartans og í sumum tilvikum lagfært með sérstökum brennsluaðgerðum. Kransæðar eru metnar og meðfæddir- og áunnir hjartasjúkdómar eru greindir og metnir, mest með ómskoðunum og dopplerrannsóknum. Almennt mat er lagt á lungnastarfsemi á sjúklingum sem eru að fara í aðgerðir svo og hjá lungnasjúklingum. Rannsóknirnar eru gerðar með blástursprófum og blóðgasmælingum.
Líffærameinafræði
Rannsóknir í líffærameinafræði miða að greiningu sjúkdóma í lífsýnum frá sjúklingum og sýnum frá látnu fólki. Vinna lífeindafræðinga felst í meðhöndlun vefjasýna þ.e. festingu, innsteypingu, frystingu, skurði og hefðbundnum vefjafræðilegum litunum. Á þennan hátt er vefjagerð og starfsemi hinna ýmsu líffæra gerð sýnileg við smásjárskoðun. Auk þess eru framkvæmdar ýmsar frekari rannsóknir til nánari sjúkdómsgreiningar, s.s. mótefnalitanir, flæðigreiningar og sameinda-erfðafræðilegar aðferðir (PCR) á vefjasýnum. Rannsóknir þessar eru gerðar til þess að kanna þroskastefnu illkynja æxla, undirflokkun, uppruna þeirra svo og meinvarpa. Á Rannsóknastofu í meinafræði er unnið að söfnun sýna í lífsýnabanka og margvíslegum vísindarannsóknum varðandi gerð og tíðni illkynja æxla.
Meinefnafræði
Rannsóknir í meinefnafræði miða að greiningu frávika frá eðlilegri líkamsstarfssemi vegna sjúkdóma, áverka eða annarra þátta og fylgjast með framvindu meðferðar. Gerðar eru mælingar á blóði, þvagi, mænuvökva, liðvökva og fleiri líkamsvökvum. Fylgst er með vökvajafnvægi líkamans, efnaskiptum, starfsemi ýmissa líffæra, lyfjaþéttni, mótefnamyndun og þróun æxla. Við mælingar eru notuð háþróuð, afkastamikil greiningartæki sem krefjast tækniþekkingar, nákvæms viðhalds og umhirðu. Fylgst er með áreiðanleika niðurstaðna með innra og ytra gæðaeftirliti.
Ónæmisfræði
Rannsóknir í ónæmisfræði miða að greiningu og/eða útilokun á sjúkdómum í ónæmiskerfi mannlíkamans, svo sem sjálfsofnæmis- og ofnæmissjúkdómum. Leitað er að mótefnum gegn ákveðnum sjúkdómsvaldandi þáttum. Þessir þættir geta annað hvort verið hluti af líkama einstaklingsins sjálfs, t.d. mótefni sem einstaklingur myndar gegn sínum eigin skjaldkirtli eða utanaðkomandi þættir t.d. mótefni gegn ákveðnum fæðu- og/eða dýrategundum. Magnákvörðun er gerð á ákveðnum þáttum ónæmiskerfisins til að meta ástand þess og einnig er mæld lyfjaþéttni í blóði, t.d. hjá líffæraþegum. Fylgst er með áreiðanleika niðurstaðna með innra og ytra gæðaeftirliti.
Sameindalíffræði
Rannsóknir í sameindalíffræði miða að leit að erfðafræðilegum orsökum sjúkdóma. Beitt er ýmsum aðferðum sameindaerfðafræðinnar s.s. einangrun DNA úr blóði og öðrum lífssýnum, kortlagningu sjúkdómsgena með fjölföldun erfðaefnis (PCR), tengslagreiningu, raðgreiningu í sjálfvirkum raðgreiningartækjum og úrvinnslu gagna í tölvum. Gerð er einræktun gena í bakteríum eða sveppum (YAC-gervilitningar) og DNA einangrað úr þeim. Leitað er að stökkbreytingum í blóði sjúklinga með ýmsum aðferðum svo sem Southern-blot, þáttapörun og SSCP-gelum.
Sýklafræði
Rannsóknir í sýklafræði miða að greiningu sjúkdómsvaldandi baktería, sveppa og sníkjudýra eða ummerkjum um sýklana í sýnum frá mannslíkamanum eða öðrum lífrænum sýnum. Leitað er sýkla með ræktun, mótefnavaka og/eða genabúta tiltekinna sýkla. Mat er lagt á líkur á því hvort um sjúkdómsvaldandi örverur er að ræða svo og á áreiðanleika niðurstaðanna. Næmi sýkla fyrir sýklalyfjum, virkni lyfjanna í blóðvatni og þéttni þeirra eru mæld. Leitað er að mótefnum í sýnum sjúklinga sem gefa vísbendingu um sýkingu. Grunnrannsóknir taka m.a. til faraldursfræði og ónæmis sýkla gegn sýklalyfjum og fleiri eðlisþátta þeirra.
Veirufræði
Rannsóknir í veirufræði miða að greiningu sjúkdómsvaldandi veira í sýnum frá mannslíkamanum. Leitað er að veirunum með ræktun í lifandi frumum og/eða leit mótefnavaka eða genabúta tiltekinna veira. Mat er lagt á niðurstöður og áreiðanleika þeirra. Leitað er að mótefnum í sýnum frá sjúklingum með ýmsum aðferðum í þeim tilgangi að greina veirusjúkdóma eða kanna ónæmi gegn ákveðnum veirum sem ýmist getur verið tilkomið eftir veirusýkingar eða bólusetningar. Grunnrannsóknir taka m.a. til faraldursfræði veirusótta og rannsókna á ýmsum eðlisþáttum veira.