Skip to main content
Kjaramál

Ályktun frá stjórnarfundi Félags lífeindafræðinga þann 21.nóvember 2017

By nóvember 24, 2017No Comments

Eftirfarandi ályktun kom fram á stjórnarfundi félagsins í tengslum við yfirsandandi kjaraviðræður ríkisins og FL.

Reykjavík, 21.nóvember 2017

Stjórn Félags lífeindafræðinga telur mjög mikilvægt að ríkið taki ábyrgð sína sem vinnuveitandi alvarlega. Gera þarf miðlægan kjarasamning við Félag lífeindafræðinga sem tryggir launaþróun félagsmanna en auk þess þarf ríkið sem vinnuveitandi að gera stofnunum þeim sem lífeindafræðingar starfa á kleift að ráða til sín nýtt starfsfólk í stað þess stóra hóps sem er að fara á eftirlaun. Til þess þarf að bæta bæði laun og starfsaðstæður. Launasetning á stofnunum er allt of lág, nýútskrifaðir lífeindafræðingar fá umtalsvert betur borgað annars staðar. Starfsumhverfi er oft mjög ábótavant, húsnæði lélegt, jafnvel myglað, álag of mikið og þreyta setur mark sitt á vinnumenninguna. Það er ekki að undra að ungir lífeindafræðingar leiti á almenna markaðinn í stað þess að ráða sig hjá stofnunum ríkisins. Í þessu þarf átak, bæði miðlægt og á stofnunum, ef ríkið hefur áhuga á að starfrækja áfram lækningarannsóknastofur sem mannaðar eru fagmenntuðu starfsfólki. Lífeindafræðingar eru takmörkuð auðlind.

Stjórn FL. 

Nánari upplýsingar um lífeindafræðinga í starfi hjá ríki:

Meðfylgjandi mynd sýnir aldursdreifingu starfandi lífeindafræðinga hjá ríkinu. Mjög margir lífeindafræðingar sem eru 60 ára og eldri eru aðilar að B-sjóði LSR, eða sambærlilegum sjóði sveitarfélaga, og geta því farið á eftirlaun þegar svokallaðri 95 ára reglu hefur verið náð eða þegar samanlagður starfs- og lífaldur hefur náð 95 árum, þó ekki fyrr en í fyrsta lagi við 60 ára aldur. Nú er ljóst af súluritinu, jafnvel þó það taki ekki tillit til starfshlutfalls, að mjög stór hluti starfandi lífeindafræðinga hefur nú þegar náð almennum eftirlaunaaldri, og enn fleiri sé B-sjóðs hópurinn talinn með. Sem betur fer hefur þessi hópur ekki hætt störfum enn og vonandi gerist það ekki í bráð. Það er þó aukin hætta á að þessi mikilvægi hópur lífeindafræðinga, sem  þegar hefur öðlast rétt til eftirlauna, yfirgefi vinnustaðina. Undanfarin ár hefur álag stöðugt aukist, undirmönnun  er viðvarandi og svigrúm til að sinna öðrum nauðsynlegum verkum sem ekki snúa að kjarnastarfssemi minnkar sífellt.  Sameiginlegt átak þarf til að forða stórslysi í þessari mikilvægu grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins, hlúa þarf að þeim sem nú þegar eru í starfi svo þeir gefist ekki upp á meðan leitað er að leiðum til að laða unga nýútskrfaða lífeindafræðinga til starfa hjá ríkinu.