Starfsreglur Vísinda- og fræðslusjóðs
Félags lífeindafræðinga
Síðast breytt á aðalfundi – 16. apríl 2010
1.gr.
Grundvöllur
Vísindasjóðurinn var stofnaður í kjarasamningum 20. maí 1994. Starfsreglur þessar eru settar á grundvelli reglna um Vísindasjóð FL frá hausti 1994 með viðbótum um Fræðslusjóð, sem stofnaður var 2004.
2. gr.
Stjórn og rekstrarkostnaður
Stjórn FL skipar 3 menn í stjórn sjóðsins, gjaldkera FL auk tveggja annarra og skal annar þeirra vera formaður sjóðstjórnar. Sjóðstjórn skal skipuð til tveggja ára í senn og ekki skulu fleiri en tveir af þremur stjórnarmönnum ganga út í einu. Sjóðstjórn hafi aðgang að þjónustuskrifstofu SIGL við úthlutun og útreikninga. Sjóðurinn greiði kostnað við vinnu vegna úthlutunar, bókhalds og endurskoðun hans ef einhver er.
3. gr.
Hlutaskipting Vísinda- og fræðslusjóðs
Þá fjárhæð sem vinnuveitandi hefur greitt í Vísindasjóð fyrir hvern félagsmann á yfirstandandi almanaksári skal greiða félagsmanni út að fullu fyrir 1. febrúar á því næsta, sem árlegt framlag til öflunar fræðirita og búnaðar, námskeiða o.þ.h. eða vegna endur- eða viðbótarmenntunar. Sú fjárhæð sem verður til vegna óúthlutaðs Vísindasjóðs auk vaxta og verðbóta sjóðsins (að frátöldum kostnaði) rennur í fræðslusjóðshlutann.
4. gr.
Styrkhæfni fyrir Vísindasjóð
Einungis félagsmenn FL sem greitt hefur verið fyrir í sjóðinn eiga rétt til greiðslu úr honum og fá þá upphæð sem greidd er inn á þeirra nafni greidda út að fullu.
5. gr.
Úthlutun Vísindasjóðs.
Sjóðstjórn skal sjá til þess að sjóðsfélögum sé tilkynnt strax í upphafi árs með tölvupósti og með auglýsingu á heimasíðu félagsins að úthlutun sé væntanleg. Ekki er þörf á sérstakri umsókn en hver sjóðsfélagi skal sjálfur sjá til þess að réttar upplýsingar um bankanúmer og slíkt séu til staðar á skrifstofu félagsins. Hafi sjóðsfélagi ekki sinnt því að senda inn upplýsingar um bankanúmer á viðkomandi ári bætist styrkur hans eða eftirstöðvar styrks það ár við styrkupphæð hans næsta ár. Inneign fyrnist eftir 2 ár, þ.e. útborgun vegna árs 2004 fyrnist ef sjóðsfélagi gætir þess ekki að senda inn umbeðnar upplýsingar fyrir lok janúar 2006. Það sem fyrnist í Vísindasjóði leggst við höfuðstól Fræðslusjóðs
6. gr.
Fræðslusjóður
Auk framlags sem getið er í 3. grein leggur félagið xx% af félagsgjöldum félagsmanna sinna í Fræðslusjóð.
7. gr.
Vísinda- og fræðslusjóður
Styrkveiting úr öðrum hluta sjóðsins útilokar ekki styrkveitingu úr hinum.
8. gr.
Úthlutun Fræðslusjóðs
Sjóðstjórn auglýsir umsóknarfrest vegna sérstakra verkefna. Umsóknarfrestur skal vera til 1. mars ár hvert. Þeir sem sækja um styrk úr sjóðnum skulu senda sjóðstjórn umsókn þar sem fram kemur lýsing á því námi sem styrkurinn skal renna til, áætlaður kostnaður, námstími, aðrir styrkir og aðrar þær upplýsingar sem sjóðstjórnin telur nauðsynlegar. Sjóðstjórn tekur ákvörðun um styrkveitingu og upphæð styrkja í samræmi við vinnureglur.
9. gr.
Vinnureglur fyrir Fræðslusjóð
Leitast skal við að styrkja það nám / verkefni sem nauðsynlegast er fyrir hag stéttarinnar á hverjum tíma.
a. Sjóðsfélagar geta sótt um styrki til framhaldsnáms (mastersnáms, stjórnunarnáms, „ingeniör“-náms o.fl.) og styrki vegna vinnu við verkefni/rannsóknir.
b. Ekki skal veita styrk til B.S.náms í lífeindafræði.
c. Ekki skal veita styrk á þing eða ráðstefnur nema félagar sjálfir fari með verkefni eða fyrirlestra á þau til flutnings.
d. Greiðslur úr sjóðnum skulu að jafnaði fara fram eftir á gegn framvísun reikninga eða annarra gagna sem sýna að styrkurinn nýtist til þeirra verkefna sem ætlað er.
e. Hafi styrkþegi ekki lagt fram tilskilin gögn til að fá styrkinn greiddan innan tveggja ára frá áætluðum greiðsludegi fyrnist styrkurinn.
f. Sá sem aldrei hefur fengið styrk úr sjóðnum hefur að öðru jöfnu forgang.
10. gr.
Endurskoðun starfsreglna
Sjóðstjórn er heimilt að endurskoða starfsreglur þessar ár hvert og nýta sér þar með þá reynslu sem skapast hefur.